Enginn á að vera farþegi í eigin brúðkaupi

Elín Hrund og Ásgeir Páll eru frábær saman og eru …
Elín Hrund og Ásgeir Páll eru frábær saman og eru um þessar mundir að undirbúa brúðkaup sem haldið verður í sumar. Ljósmynd/Einkaeign

Ásgeir Páll, óperusöngvari og útvarpsmaður á K100, er um þessar mundir að undirbúa brúðkaup sitt með tilvonandi eiginkonu sinni, Elínu Hrund Garðarsdóttur.

Þau ætla að halda fallegt sumarbrúðkaup og ákváðu brúðkaupið fyrir tveimur árum. Dagsetninguna völdu þau fyrir ári og verður brúðkaupið haldið 11. ágúst 2018. „Við völdum þessa dagsetningu þar sem við teljum góðar líkur á að sem flestir sem við viljum að komi og gleðjist með okkur verði á landinu á þessum tíma.“

Hjónabandið gjöf okkar beggja hvort til annars

Hvaða meiningu leggur þú í hjónabandið?

„Að mínu mati er ég tilbúinn að skuldbinda mig inn í heilagt hjónaband með Elínu. Hjónabandið er yfirlýsing bæði frammi fyrir mönnum og Guði að við ætlum að vera saman.  Við erum innilega ástfangin, þrátt fyrir að þekkja galla og auðvitað kosti hvort annars og í því ljósi gerum við þennan samning um að eyða því sem eftir er af ævinni saman.“

Ásgeir er svo sannarlega fús og óhræddur að stíga þessi skref og segir: „Ég tel í rauninni að enginn ætti að gifta sig sem finnur til óþæginda við þá tilhugsun. Auðvitað getur margt legið að  baki slíkum tilfinningum en ég er á þeim stað í lífinu í dag að ég hef löngun og þrá í að giftast konunni minni. Þess vegna vel ég að gera það með þessum hætti. Ég lít svo á að ég sé að gefa sjálfum mér gjöf að fylgja hjartanu mínu en ekki síst sé ég að gefa henni hjartað mitt áfram. Ég vil vera með þessari konu alltaf og veit að hún ber sama hug til mín í þeim efnum.“

Brúðkaupið mun fara fram Fríkirkjunni í Hafnarfirði.
Brúðkaupið mun fara fram Fríkirkjunni í Hafnarfirði. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Hvar fer veislan fram?

„Athöfnin fer fram í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og veislan verður haldin í húsi Frímúrarareglunnar í Hafnarfirði. “

Samvinnan er það sem  skiptir máli

Hvernig gengur undirbúningurinn?

„Hann gengur mjög vel. Við tökum bæði ábyrgð á undirbúningnum sem mér finnst nauðsynlegt. Sumt gerum við saman og það gengur vel og annað gerum við sitt í hvoru lagi sem gengur vel líka. Hún sem dæmi sér um allar skreytingar og ég um tónlistina eðli málsins samkvæmt, ég gæti ekki vitað fyrir nokkra muni hvað er fallegt í skreytingum en tel mig hafa ágætisforsendur til að velja góða tónlist.“

Hvað leggur þú megináherslu á að gestirnir upplifi þennan dag?

„Við leggjum áherslu á að vinir okkar og skyldmenni komi og gleðjist með okkur þennan dag. Að öllum líði vel, borði góðan mat og skemmti sér vel. Eftir athöfn og formleg veisluhöld ætlum við að snúa veislunni upp í 80´s og 90´s ball, sem vonandi lifir í minningunni ásamt allri fegurðinni þarna á undan um ókomna tíð.“

Að sinna stóru málunum í lífinu

Hvað hefurðu lært af öllum undirbúningnum og myndir ráðleggja fólki að gera ekki?

„Ég er kannski betur til þess fallinn að tala til karlmanna í þessu samhengi og myndi þá helst ráðleggja þeim að taka þátt. Ekki taka ákvörðun um að gera þetta og vera bara farþegi á þessum stóra degi. Það skiptir báða aðila miklu máli að vinna saman að stórum málum í lífinu. Svo kemur á óvart í öllu þessu hversu gefandi það er að taka þátt og hafa áhrif,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál