Hvert fór maðurinn minn?

Alkahólismi er fjölskyldusjúkdómur. Hann hefur áhrif á alla í kringum …
Alkahólismi er fjölskyldusjúkdómur. Hann hefur áhrif á alla í kringum þann sem drekkur. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Á Smartlandi starfa nokkr­ir ráðgjaf­ar sem leit­ast við að gefa les­end­um góð ráð. Eft­ir­far­andi bréf barst á dög­un­um frá les­anda sem velt­ir fyr­ir sér hvert maðurinn hennar fór, svo mikið hefur hann breyst að undanförnu. Ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjaf­inn El­ín­rós Lín­dal gef­ur ráð.

Sæl.

Ég er ráðalaus eiginkona manns sem ég ekki þekki lengur. Við höfum verið saman lengi og það hefur ýmislegt gengið á. En ekkert sambærilegt því sem er í gangi hjá okkur í dag. Ef ég hefði sest niður við tölvuna mína og skrifað um manninn minn fyrir nokkru síðan, hefði ég líst honum sem fallegum fjölskyldumanni sem vildi allt fyrir okkur gera. Hann er einstaklega handlaginn, var alltaf til staðar. Elskaði syni sína þrjá meira en allt annað í lífinu. En hann hefur farið frá því að vera mikill hjólreiða útivistar maður í að drekka stanslaust allar helgar. Helgin hans byrjaði reyndar á föstudegi, en er að teygja sig yfir í fimmtudaga, stundum miðvikudaga og endar á sunnudegi, stundum mánudegi.

Hann meiddist á hné fyrir nokkrum árum og þurfti að leggja hjólinu. Sem var ágætt því hjólatúrarnir voru farnir að taka allan hans tíma.

Þegar einstaklingar eru að þróa með sér alkahólisma eru þeir …
Þegar einstaklingar eru að þróa með sér alkahólisma eru þeir oft mjög ómeðvitaðir um staðinn sem þeir eru á. Sér í lagi ef fjölksyldan er að viðhalda ástandinu með þeim. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Hins vegar tók við tími þar sem hann lokaði sig af og byrjaði að drekka. Í dag þá myndi hann ekki mæta á réttum tíma í vinnuna ef það væri ekki fyrir að ég kæmi honum á fætur. Hann er farinn að fara út um helgar (hangir ekki bara heima að drekka) og ég er heppin ef hann kemur heim á laugardeginum. Svo stíft drekkur hann.

Hann er í góðri vinnu, en er búinn að fá nokkrar áminningar þar. Ég veit ekki hvað ég held þetta lengi út. Ég þarf hjálp strax. En það er sama hvað ég segi eða geri hann hlustar hvorki né tengir við mig lengur. 

Hann er reyndar þakklátur eftir helgar, því ég hef passað að halda öllu saman hér heima. Enda þekki ég manninn minn og er að býða eftir að þetta tímabil líði hjá. En hvað gerir maður til að ná til þeirra sem maður elskar í svona stöðu? Hvert fór maðurinn minn?

Kærar  XXX.

Elínrós Líndal er ráðgjafi með meðvirkni og fíknsjúkdóma sem sérgrein.
Elínrós Líndal er ráðgjafi með meðvirkni og fíknsjúkdóma sem sérgrein. Eggert Jóhannesson

Sæl XXX.

Mig langar að byrja á því að segja að þú ert ekki ein um að vera í þessari stöðu sem þú ert í. Því miður. Fjölmargar konur og karlar eru að fást við nákvæmlega það sama, hver í sínu horni að reyna allt hvað þau geta til að fá makann sinn til baka úr mynstri sem virðist hafa meira vald en nokkuð annað í þessari veröld. 

Ég er með nokkur góð ráð til að brjóta mynstrið, aftengja þig svo þú getur haldið áfram með þitt líf og mögulega verða hluti af hans bata. En fyrst þarftu að gera þér grein fyrir nokkrum hlutum:

Alkahólismi er sjúkdómur, hann er ekki val eða agaleysi. Eiginmaðurinn þinn virðist vera að fást við þennan sjúkdóm eins og stendur. Þú virðist vera að hjálpa honum að þróa hann. Slíkt er algengt og í raun og veru eðlilegt þegar maður þekkir ekki lausnina eða sjúkdóminn ofan í kjölinn.

Alkahólismi er sjúkdómur sem leggst á alla fjölskylduna. Hann er oft lengi að þróast og þess vegna eru þeir sem búa á heimilinu orðnir frekar samdauna óheilbrigðu mynstri áður en þeir leita sér aðstoðar.

En það er til lausn og hún er eftirfarandi:

Þú getur orðið hluti af lausninni ef þú aftengir þig sjúkdóminum og setur fókusinn á þig og börnin ykkar. Þú þarft einnig að átta þig á að allt sem þú gerir til að styðja við ástandið eins og það er núna, er aðstoð við sjúkdóminn. Allt sem þú gerir til að fókusera á heilbrigði og ábyrgð á þér er hluti af lausninni. Hann þarf að fá að upplifa hvert hann er kominn og taka ábyrgð á sér. 

Þannig að ef þú ert raunverulega komin með nóg, farðu á Al-anon fundi og sittu eina  6-8 fundi og taktu eftir því hvað þú sérð og heyrir. 

Þú þarft að velja á hverjum degi að vera í þessu hjónabandi og velja að setja fókusinn á þig og vera þakklát og glöð fyrir hvað þú átt í þessu lífi. Ég veit að það getur verið erfitt þegar maður er orðinn tengdur sjúkdómi. En mundu að með aukinni þekkingu og handleiðslu þá færðu orku til að breyta til.

Ég hef heyrt ótal sögur frá eiginkonum sem fóru úr algjöru vonleysi yfir í að standa í ljósinu, með aðstoð frá sérfræðingum á þessu sviði og 12 spora vinnu eins og boðið er upp á í Al anon. Flestir prestar þekkja upphafið af leiðinni, Lausnin býður raunverulega laus. Valmöguleikarnir eru endalausir. 

Þekkir þú einhvern í AA? Þekkir þú fólk í bata? Taktu upp tólið og biddu um hjálp. 

Þú þarft að skoða hvort þú treystir þér til að búa með virkum alkahólista, það er ekki sjálfsagt. Setja heilbrigð mörk með ráðgjafa og skoða alla valmöguleika.

Eins þarftu að æfa þig í að tala við eiginmann þinn en ekki sjúkdóminn sem hann er með. Ef þú ferð með bænir, biddu Guð / eða æðri mátt að koma inn í lífið þitt og í stað þess að fara í orustu við veikan manninn, beindu orkunni í bænina og biddu um handleiðslu. 

Þú þarft einnig að biðja fyrir þér. Daglega verða kraftaverk á þessu sviði, ég þekki þau allmörg sjálf. Það eina sem þú þarft að vera tilbúin til er að trúa að það er til eitthvað þér æðra og mér sýnist á bréfinu þínu að þú gerir það.

Það eru eins og fyrr segir margir sem hafa farið í gegnum það sem þú ert að fara. Þess vegna get ég lofað þér að ef þú heldur af stað, þá muntu fá margar hendur að leiða þig áfram. Lófa sem hafa fengið kraftaverk inn í sitt líf og langar að borga þau til baka. Slepptu tökunum og treystu. Ég veit að þú ert nú þegar komin af stað í þessa vegferð. Annars hefðir þú ekki haft kraftinn til að skrifa bréfið. Það er kraftaverk í sjálfu sér.

 Gangi þér vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál