Missi ég íbúðina ef allt fer í þrot?

mbl.is/Thinkstockphotos

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem hefur áhyggjur af fjármálum. 

Sæl Heiðrún.

Maðurinn minn á fyrirtæki með öðrum manni og fjárhagslega þá gengur mjög illa. Hann/þeir eru persónulega ábyrgðaraðilar á gjaldföllnum lánum.

Mig langar að vita hvort hægt sé að ganga á okkar persónulegu sameiginlegu eignir ef til fjárnáms/gjaldþrots fyrirtækisins kæmi? Hver er mín réttarstaða?

Ég á húsnæði sem er í minni séreign, þ.e. við gerðum kaupmála áður en við giftum okkur. Er hægt að ganga á þá eign?

 

Með fyrirframþökk,

L

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður.
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. mbl.is/Valgarður Gíslason

Sæl L,

Leitt að heyra með fjárhagsstöðu fyrirtækisins.

Þar sem maðurinn þinn og félagi hans eru í persónulegum ábyrgðum fyrir skuldum félagsins er hægt að ganga að eignum þeirra ef kröfuhafar félagsins ákveða að gera aðför hjá þeim. Ef um óskipta ábyrgð þeirra er að ræða geta kröfuhafar ráðið hjá hvorum þeirra þeir krefjast efnda. Þrátt fyrir að félagið verði gjaldþrota er samt sem áður hægt að innheimta skuldir þess hjá ábyrgðarmönnum. Ábyrgðirnar fyrnast þó á sama tíma og skuldir félagsins, nú á tveimur árum frá því að skiptum er lokið.

Þar sem þú og maðurinn þinn eruð í hjúskap geta kröfuhafar fyrirtækisins gengið að hjúskapareignum ykkar við innheimtu ábyrgðarskuldbindinga mannsins þíns. Það gildir ekki um séreign þína, húsnæðið. Hafir þú sjálf persónulega ekki gengist undir ábyrgðarskuldbindingar fyrir fyrirtækið er ekki hægt að taka þá eign fjárnámi til uppgjörs á skuldum félagsins, nema þá aðeins með þínu samþykki.

Kær kveðja,

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Heiðrúnu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál