Erfi ég tengdaforeldra mína?

Íslenskur ekkill spyr um réttindi sín.
Íslenskur ekkill spyr um réttindi sín. mbl.is/Thinkstockphotos

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá ekkli og er hann að spyrja út í arf. 

Sæl og blessuð. 

Það er mjög áhugavert að lesa svörin frá þér, ég geri það alltaf.
Mín spurning er að ég missti konuna mína fyrir einu ári. Við vorum gift og áttum þrjú börn saman sem eru öll undir lögaldri. Hálfu ári síðar lést tengdaforeldri mitt sem sat í óskiptu búi. Er það rétt að eingöngu börnin mín erfi hlut konunnar minnar úr búi foreldra hennar? Er ég, eiginmaður hennar, alveg arflaus? Það var ekki erfðaskrá og eingöngu lögerfingjar til staðar.

Bestu kveðjur,
J

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands.
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. mbl.is/Valgarður GíslasonSæll J,

Ég votta þér samúð vegna fráfalls konu þinnar.

Spurningin er mjög góð. Við fráfall konu þinnar erfir þú 1/3 hluta eigna hennar og 2/3 hlutar eigna hennar renna til jafns til barnanna ykkar þriggja. Með sama hætti hefði konan þín erft foreldri sitt. Þar sem hún er látin erfa börnin ykkar hennar hlut úr búi foreldra hennar.

Það er því rétt að þú átt ekki tilkall til arfs eftir tengdaforeldri þitt.

Það er þó hægt að teikna upp atburðarás sem ég get ekki ráðið af þinni lýsingu hvort er raunin. Hafi annað foreldri konu þinnar látist á undan henni er mögulegt að hitt foreldrið hafi setið í óskiptu búi. Kona þín átti þá tilkall til arfs eftir skammlífara foreldri sitt úr hinu óskipta búi. Arfur er séreign en verður að hjúskapareign við andlát. Þegar seinna foreldri konu þinnar lætur lífið verður að skipta búum beggja. Sitjir þú núna í óskiptu búi rennur arfshluti konu þinnar eftir skammlífara foreldrið  inn í bú ykkar hjóna. Þar sem ég þekki ekki frekari forsendur en þú lýsir get ég ekki sagt til um hvort þetta geti átt við um þig og set alla fyrirvara.

Ég vona að þetta hafi aðeins skýrt stöðuna. 

Gangi þér vel.

Kveðja,

Heiðrún Björk Gísladóttir 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Heiðrúnu spurningu HÉR. 

mbl.is