„Hvernig kemst ég yfir eiginmanninn sem yfirgaf mig?“

Maðurinn fór frá konunni eftir 20 ára hjónaband, án allra …
Maðurinn fór frá konunni eftir 20 ára hjónaband, án allra skýringa. Ljósmynd/Unsplash/Naomi August

Eiginmaður konunnar fór frá henni fyrir hálfu ári og hún finnur enga leið til að komast yfir það. Hún leitar á náðir Philippu Perry, sálfræðings og ráðgjafa tímaritsins Red. 

„Eiginmaður minn fór frá mér fyrir sex mánuðum. Ég er 44 ára og við höfðum verið saman í 20 ár. Þegar hann fór var dóttir okkar nýbyrjuð í háskóla og flutt út. Síðan fyrir tveimur vikum komst ég að því að hann fór frá mér fyrir aðra konu, konu sem hann kynntist í vinnunni. 

Hann hefur ekki heimsótt mig síðan eða haft samband við mig á nokkurn hátt til að ræða um af hverju hann gerði það sem hann gerði. Ég skil ekki af hverju hann fór og það var algjört áfall fyrir mig. Ég hélt við værum náin og hamingjusöm fjölskylda. Ekki hamingjusöm alltaf, en ég meina, hver er það? Hvernig gat ég haft svona rangt fyrir mér?

Mér líður eins og ég hafi verið gift ókunnugum manni. Hann hefur ekki einu sinni reynt að tala við dóttur okkar til að útskýra. Þegar ég sendi honum skilaboð til að láta hann vita að hún væri til í að heyra frá honum svaraði hann á þá leið að hún væri fullorðin en ekki barn. Mér finnst ömurlegt að hann hafi klippt hana líka út úr lífi sínu. Ég er orðin mjög kvíðin og glími við mikið þunglyndi vegna gjörða hans og ég virðist ekki geta rifið mig upp úr því. Ég fæ stuðning frá fjölskyldu minni og góðum vinum, og dóttur minni líka. En ég er föst og virðist ekki geta hreyft mig.“

Philippa svarar: 

„Það er virkilega ömurlegt að heyra þetta, þetta hljómar eins og skelfilegur tími fyrir þig. Þið voruð búin að vera saman í 20 ár og þetta gerðist fyrir aðeins sex mánuðum. Þú þarft lengri tíma til að jafna þig. Kvíði og þunglyndi eru mjög eðlileg viðbrögð við svona áfalli. Þú munt komast yfir þetta, en þú getur ekki flýtt fyrir því. Þú getur ekki stoppað blæðingu úr sári fyrr en rauðu blóðkornin hafa haft tækifæri til að storkna og þú getur ekki sloppið fram hjá sársaukanum sem þessar gjörðir ollu þér. Þú komst bara að þessu með hina konuna fyrir tveimur vikum. Það tekur tíma að vinna úr atburðum og upplýsingum jafn þýðingarmiklum og þessum. 

Þú munt halda áfram af því þú hljómar eins og þú viljir það. En því miður er ekki hægt að flýta því. Þú þarft að finna fyrir tilfinningunum. Sumir eru góðir í að pakka tilfinningunum saman og setja þær í kassa, afneita þeim, en með því að gera það finna þeir ekki til samkenndar með öðrum. Þegar við bælum eina tilfinningu eigum við það til að bæla allar hinar tilfinningarnar líka. Ef þú deyfir sársaukann þá deyfirðu þig sjálfa. Þannig að ég mæli ekki með að þú lokir á allar tilfinningar, jafnvel þótt það væri hægt. Fyrir utan það að bældar tilfinningar eiga það til að koma aftan að okkur seinna meir.

Þrátt fyrir að þú finnir fyrir miklum sársauka núna tel ég þig vera að gera það rétta í stöðunni með að reiða þig á stuðning fjölskyldu og vina í gegnum sorgina. Að halda áfram að finna fyrir sáru tilfinningunum og gefa þeim pláss gerir að verkum að þær stinga þig minna og minna með tímanum. Ef þig langar til að verða reið, ekki halda aftur af þér. 

Fyrrverandi eiginmaður þinn virðist ekki vera tilbúinn til að ræða það við þig hvað gerðist þannig að sama hvað þú gerir þá verður útskýring þín alltaf, að einhverju leyti, tilbúningur. En ekki kenna þér um á nokkurn hátt. Fyrst hann ákvað að flýja frá þér án nokkurra útskýringa, þá var ekki neitt sem þú gast gert til að koma í veg fyrir það. Mín uppáhaldsútskýring fyrir svona atburði er: „Hann hagaði sér eins og drullusokkur.“

Passaðu að nota ekki dóttur þína til að fá einhverjar skýringar á brotthvarfi hans. Ég veit ekki hvort það var það sem þú reyndir að gera þegar þú sendir honum skilaboð um að hana langaði til að heyra frá þér, en eins og þú veist getur hún sjálf sent honum skilaboð. Hann segir að hún sé fullorðin 18 ára gömul, hún gæti vel verið það, börn sem eiga barnalega feður eiga það oft til að fullorðnast of snemma.

Með tímanum áttu eftir að sjá þetta sem tækifæri, tækifæri til öðruvísi og betra lífs, en ekki búast við því að finna fyrir því á næstunni. Þú þarft meiri tíma. Ég mun hugsa til þín.“

Eiginmaðurinn vill ekkert ræða af hverju hann fór.
Eiginmaðurinn vill ekkert ræða af hverju hann fór. mbl.is/Colourbox
mbl.is