Níu lífsreglur Jane Fonda

Jane Fonda segir að lífið verði auðveldara eftir því sem …
Jane Fonda segir að lífið verði auðveldara eftir því sem maður eldist. AFP

Leikkonan Jane Fonda hefur lifað tímana tvenna og alltaf látið heimsmálin sig varða. Fonda hefur verið baráttukona allt sitt líf og barist fyrir ýmsum málefnum. Hún mótmælti bæði Víetnamstríðinu á sínum tíma og Íraksstríðinu en á síðasta ári vakti hún athygli þegar hún lagði baráttunni við loftslagsvána lið. 

Nýlega gaf hún út bókina What Can I Do?: The Truth About Climate Change And How To Fix It. Í viðtali við breska tímaritið Red talaði hún um það sem hún hefur lært á sínum 82 árum á plánetunni jörð. 

Það er mikilvægara að vera áhugasamur en áhugaverður

„Frægt fólk vill oft vera áhugavert. En ef þú ert áhugasamur, þá mun það gera þig áhugaverðan. Og þú verður líka yngri í anda. Ég hætti leiklistinni í 15 ár og kom svo aftur 63 ára. Það var fordæmalaust. Það var í kvikmynd sem hét Monster-In-Law með Jennifer Lopez. Ég held að sú staðreynd að ég var enn forvitin, langaði enn að læra og hélt hæfileikum mínum lifandi hafi gert það að ég gat snúið aftur,“ segir Fonda. 

Að finna rödd sína tekur tíma

Fonda segir að fólk finni röddina sína á mismunandi tíma í lífinu. Sjálf hafi hún ekki fundið röddina sína fyrr en á áttræðisaldri. „Þú þarft að vita hverju þú ert að vinna að, sem þýðir að læra, lesa og tala við áhugavert fólk. Það þýðir líka að þú þarft að nota röddina þína jafnvel þótt þú hafir ekki sjálfstraustið í það,“ segir Fonda.

Viðurkenndu mistök þín

„Ef þú ferð í gegnum lífið og kennir öðru fólki um og heldur að heimurinn sé fullur af fávitum og þú sért sá eini sem hefur rétt fyrir sér, þá lendirðu á vegg. Við verðum að tryggja að við getum viðurkennt mistök okkar, skilið veikleika okkar og unnið að því að breytast og sigrast á veikleikunum. Við verðum að taka ábyrgð á eigin lífi,“ segir Fonda.

Vertu í núinu með börnunum þínum 

„Eitt af því sem ég sé mest eftir í lífinu er að ég var ekki alltaf til staðar fyrir börnin mín. Ég gerði það sem foreldrar mínir gerðu við mig. Ég vann fyrir þeim, passaði að þau ættu fín föt, þau voru aldrei svöng og ég fór með þau til læknis. En þegar ég kom heim eftir vinnudaginn settist ég ekki á gólfið og lék við þau. Ég horfði ekki í augun á þeim og gaf þeim ást. Ég vissi ekki hvernig ég átti að gera það. En ég stend mig vel með barnabörnin. Þau eru mitt annað tækifæri,“ segir Fonda. 

Það þarf raunverulega nánd í samböndum

„Ég er ekki að tala um kynlíf, heldur hæfileikann til að vera raunverulega til staðar fyrir hina manneskjuna af heilum hug. Góðu hlutirnir, slæmu hlutirnir, og að biðja maka þinn að gera slíkt hið sama fyrir þig. Ég held ég hafi aldrei gert það, sem er ástæðan fyrir því að ég endaði á að velja fólk sem myndi aldrei krefjast þess af mér, því það krafðist þess ekki af sjálfu sér,“ segir Fonda. 

Vertu ánægður með þá slóð sem þú fetar

„Ég nýt þess að vera einhleyp núna. Pabbi minn kvæntist fimm sinnum, ég held ég hafi aldrei átt að vera í langtímasambandi. Að því sögðu þá sé ég ekki eftir því að hafa reynt að vera í langtímasamböndum, því hvert eitt og einasta samband kenndi mér eitthvað um sjálfa mig. Ég lærði til dæmis að ég er ekki góð í að láta aðra hugsa um mig og ég er ekki góð í að hugsa um aðra. Ég ætla ekki í kynferðislegt samband aftur, ég er búin að loka búðinni,“ segir Fonda. 

Ekki taka líkama þínum sem gefnum

„Það er svo mikilvægt að vera heilsuhraustur, jafnvel enn mikilvægara með hækkandi aldri. Ungur líkami getur fyrirgefið margt. Þegar þú eldist, – ef þú verður að sófakartöflu þá ertu að biðja um vandræði. Það mikilvægasta þegar þú eldist er að halda áfram að hreyfa sig, ganga, halda liðleikanum, styrknum. Ég fer enn á æfingar. Ég geri það hægt og varlega og ég geri það fyrir mig. Og eins lengi og ég verð heilbrigð þá mun mér líða vel með sjálfa mig,“ segir Fonda. 

Jane Fonda var handtekin á mótmælum í fyrra.
Jane Fonda var handtekin á mótmælum í fyrra. AFP

Leggðu þig fram við að halda vinskap

„Þetta er algjör klisja en vinasambönd eru eins og garðar; þú verður að hugsa um þá. Þú verður að veita þeim athygli. Vinir mínir eru klárari, hugrakkari og útsjónarsamari en ég, ég læri af þeim. Ég er líka elst af öllum mínum vinum, sem er gott, því eftir því sem ég færist nær dauðanum á ég samt vini sem eru lifandi,“ segir Fonda. 

Ekki hræðast það að eldast  lífið verður auðveldara

„Ég er kannski með tvö gervihné, gervimjöðm og gerviþumal, en sem betur fer virka heilinn, hjartað og mikilvægustu líffærin enn þá. Ef þú ert við góða heilsu verður lífið töluvert auðveldara eftir fimmtugt. Það er minni fjandskapur, minni kvíði, meiri vellíðan. Hver hefði getað ímyndað sér það? Fæstir hafa ekki hugmynd um það. Þú ert með þessa reynslu á bakinu, þú veist hvað þú átt að forðast. Þú ert búinn að fara í gegnum sorg og uppsveiflu í fjármálum og þú lifðir það af. Búinn að gera hitt og þetta. Þegar þú ert ungur er þetta svo erfitt. Hvað á ég að gera? Hver er ég? Þessar spurningar heltaka þig og ekki nógu mikið af ungu fólki áttar sig á að það er í raun mjög erfitt að vera ungur. Þetta verður í raun miklu auðveldara þegar þú eldist. Sjónin er kannski verri, en ég sé heiminn samt betur,“ segir Fonda.

Það er mikilvægara að vera áhugasamur en áhugaverður að mati …
Það er mikilvægara að vera áhugasamur en áhugaverður að mati Fonda. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál