Svona lærir þú að segja nei án vandkvæða

Þeir sem eiga erfitt með að segja nei geta upplifað …
Þeir sem eiga erfitt með að segja nei geta upplifað lífið sitt sem því sé stjórnað af öðru fólki. Því er heilbrigt og nauðsynlegt að læra að segja nei. mbl.is/Colourbox

Það getur verið erfitt að setja heilbrigð mörk og segja nei við fólk sem æsir sig eða er markalaust. Þessi grein er fyrir fólk sem segir já og sér svo vanalega eftir því. 

Hugsaðu málið áður en þú segir já

Ef þú veltir fyrir þér ástæðunni fyrir því að þú segir alltaf já, þá getur þú án efa skoðað það hvernig þú setur mörk í lífinu. Gott fyrsta skref við að læra að segja nei er að staldra við og spyrja: Hvað er það sem mig langar að gera í lífinu?

Ef þú segir já til að fá eitthvað annað frá fólki þá gæti verið gott fyrir þig að prófa aðrar leiðir. 

Kannski eru hlutir sem þú getur gert fyrir þig þar sem þú þarft ekki annað fólk til að taka ábyrgð á þér. 

Sjálfsmeðvitund er alltaf fyrsta skrefið til að geta sett heilbrigð mörk í lífinu. 

Gefðu þér leyfi til að segja nei reglulega

Það er vanalega eitthvað í huga fólks sem segir að það geti ekki sagt nei því þá er það sjálfselskt eða leiðinlegt. Það er hvorki rétt né satt. 

Í raun er mjög heilbrigt að segja nei reglulega. Það þarf hvorki að vera persónulegt né neikvætt. 

Sumir vilja jafnvel meina að nú oftar en áður sé nauðsynlegt að kunna að segja nei. 

„Ég má segja nei þegar mig langar til þess,“ er góð setning að segja sjálfum sér nokkrum sinnum yfir daginn. 

Æfðu þig í að segja nei

Að læra að segja nei er eins og að æfa vöðvana í ræktinni. Eftir því sem þú gerir það oftar þeim mun betri verður þú í því. Svo af hverju ekki að byrja á því strax í dag? Finndu nokkra litla hluti sem þú getur hafnað í dag og haltu síðan áfram að æfa þig næstu daga. 

Hver veit nema lífið verði mun skemmtilegra með þessu móti?

Settu mörk um það sem þú ert tilbúin/tilbúinn að gera

Hver í kringum þig er alltaf að biðja þig um hluti en gerir lítið fyrir þig í staðinn? 

Það er alltaf gott að setja niður á blað fólkið sem þig langar að umgangast. Þegar þú hefur gert það getur þú skoðað hvort fólkið sem þú segir alltaf já við sé fólkið sem þig raunverulega langar til að hafa í lífinu þínu. 

Þú þarft ekki að svara strax

Ef þú segir oftar já en þig langar að gera gæti verið að þú sért að svara fólki of fljótt. Prófaðu að taka þér tíma áður en þú svarar og hugsa þig vel um áður en þú gerir hluti fyrir fólk. 

Þú getur sagt: „Ég þarf að hugsa mig um eða að skoða dagskrána mína.“ Eða: „Leyfðu mér að vera í sambandi við þig ef ég hef tök á því að aðstoða þig.“ 

Eins getur það að hjálpa fólki verið innan eðlilegra marka. Sem dæmi ef vinur þinn biður þig um að hjálpa sér að flytja og þú ætlar ekki að gera það ein/einn, þá getur þú athugað hversu margir verða með að hjálpa og sett heilbrigð mörk utan um aðstoðina þína. Sem dæmi að þú getir komið í klukkustund en hafir ekki tíma fyrir flutninga allan daginn. 

Forðastu að útskýra of mikið

Fólk sem er meðvirkt á það til að útskýra of mikið ástæður þess að það getur ekki gert eitthvað. Einfalt, heilbrigt og gott getur verið að útskýra ekki. 

„Nei því miður, það hentar ekki,“ er gott svar.  

Ef þú ferð sem dæmi á stefnumót með einhverjum og þig langar ekki aftur getur þú sagt: „Það var gaman á síðasta stefnumóti en mig langar ekki aftur á stefnumót með þér. Ég óska þér hins vegar alls hins besta.“

Að segja nei er ekki eins vont og þú heldur

Það er ekki algengt að fólk geti ekki tekið nei sem svar. Það hafa allir verið í þeirri stöðu að geta ekki gert eitthvað og því er nei eðlilegt svar við einhverju sem ekki hentar. 

Þú gætir viljað skoða sambönd þín við fólk sem ekki kann að taka nei frá þér. 

Það er yfirleitt markalaust fólk og hefur ekkert með þig að gera. 

HuffPost

mbl.is