Systur í sokkabandi

Systurnar Kristín og Þóra Tómasdætur.
Systurnar Kristín og Þóra Tómasdætur. mbl.is/úr einkasafni

Systurnar og metsöluhöfundarnir Þóra og Kristín Tómasdætur sendu á mánudaginn út sinn fyrsta útvarpsþátt á mánudagskvöldið á Rás 2.

Þátturinn ber heitð Sokkabandið og fjallar um stelpur og allt sem þeim viðkemur. Þær stöllur sendu um jólin frá sér sína fyrstu bók, Bók fyrir forvitnar stelpur, sem hlaut frábærar viðtökur en Þóra segir að þættirnir byggi að mörgu leiti á sömu hugmyndafræði.

„Við ræðum við frábærar stelpur sem hafa valið sér skemmtilegar leiðir í lífinu. Stelpur sem eru að skapa, skrifa, gera og græja. Eða hafa bara fyndna sýn á lífið. Stelpur eru allskonar og það er ágætt að líta framhjá steríótýpunum og fagna fjölbreytileikanum. Við viljum líka að bæði bókin og þátturinn sé hvetjandi fyrir aðrar stelpur og veiti þeim innblástur til að gera nákvæmlega það sem þær sjálfar vilja gera við líf sitt,“ segir Þóra og bætir við að þær hafi fengið fín viðbrögð við fyrsta þættinum en auðvitað taki alltaf smá tíma að slípast til í nýju hlutverki.

Þóra hefur áður starfað við útvarp þar sem hún vann í nokkra mánuði við fréttastofu útvarps fyrir mörgum árum. Hún segir það síðan hafa fylgt fjölmiðlastarfinu að blaðra öðru hverju í útvarpið, eins og hún orðar það. Kristín hefur einnig verið dregin að hljóðnemanum við ýmis tækifæri. 

Aðspurð að því hvernig samstarfið hjá þeim systrum gangi segir Þóra að það gangi yfirleitt vel, sérstaklega þegar að Kristín sé stödd erlendis. „Þá tek ég ein allar ákvarðanir. Þannig á þetta auðvitað að vera enda er ég þremur árum eldri og orð mín ættu að vega þyngra en hennar. Það er mitt mat,“ segir Þóra.

Önnur bók í deiglunni

Þar sem fyrsta bók þeirra hlaut gríðarlega góðar viðtökur er eðlilegt að reikna með því að þær stöllur taki upp pennann á ný. „Kristín hefur unnið að því undanfarið að skrifa nýja. Sú verður uppflettirit fyrir stelpur, bæði fræðandi, hvetjandi og fyndin. Meira er ekki gefið upp núna. Bjartur og Veröld gefa bókina út eins og þá fyrri enda einstaklega vel gefnir menn sem þarf starfa,“ segir Þóra að lokum.

Þátturinn er eins og áður segir á dagskrá Rásar tvö á mánudagskvöldum klukkan 22.05 og hægt er að hlusta á upptökur af þættinum inn á vef Ríkisútvarpsins.

mbl.is/úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál