Einfaldara 2018?

Á sama tíma og við lesum um það í fréttum að við höfum aldrei haft það efnahagslega betra, virðumst við aldrei hafa haft meira á okkar könnu. Ábyrgð fólks í dag er að aukast stig af stigi, þar sem venjulegur dagur er bara alls ekki svo venjulegur fyrir eina manneskju lengur.  

Tökum dæmi um venjulegan dag í lífi vísitölufjölskyldunnar:

Það krefst mikillar einbeitingar að ná árangri í vinnu og átta stundir á dag virðast varla duga í hörðu samkeppnisumhverfi viðskiptanna um þessar mundir. Sítenging snjallsíma gerir það að verkum að skil vinnu og einkalífs verða óskýr með auknu álagi og stressi.

Svo þarf að koma sér í form sem tekur í það minnsta 2 tíma á dag með sturtu og keyrslu fram og til baka. Börnin hafa gaman af tómstundum og þar er margt í boði með skutli og fleira tilheyrandi. Svo ekki sé minnst á gæðamatinn sem eðlilegt er að elda í ró og friði í faðmi fjölskyldunnar hvert kvöld. En slík máltíð tekur í það minnsta 2 tíma með viðkomu í búð á leiðinni heim úr vinnu. Það sem eftir lifir kvöldsins fer svo oft og tíðum í að fínisera heimilið, taka til inni í skápum og raða. Svo það er ekki nema von að kvíði og stress geri vart við sig í þessu álagi.

En hvað getum við gert til að breyta til og einfalda líf okkar? Samkvæmt Efnahagsreglu Pareto sem nefnd er eftir hagfræðingnum Vilfredo Pareto (80/20 reglan) er ójafnt samband á milli þess sem maður leggur í hlutina og útkomu. Pareto-reglan segir að 20% af því sem við gerum megi rekja til 80% af því sem við fáum til baka. Þessi regla var gerð til að minna okkur á að það ríkir ekki jafnvægi á milli þess sem við gerum og hvað við fáum til baka .

Hér koma hugmyndir um það sem við getum gert öðruvísi á nýju ári með aðstoð Pareto.

Slepptu tökunum á fötunum

Pareto-reglan segir að í 80% tilfella notir þú 20% af fataskápnum. Sem þýðir að 8 af hverjum 10 flíkum í fataskápnum mega fara.

Af hverju prófarðu ekki að losa þig við 80% af því sem er í skápnum þínum? Við mælum með að þú flokkir það sem þú tekur út úr fataskápnum  í sumar og vetrarfatnað. Mundu að það er áskorun að taka svona mikið út úr skápnum, svo settu í kassa sem þú getur haft aðgengilegan hluti sem þú telur að þú munir þurfa. Þú þarft eflaust að bæta inn í fataskápinn þinn úr þessum kassa, en mundu að skila einhverju úr fataskápnum í staðinn inn í geymslu.

Eftir nokkur ár muntu eflaust finna helminginn af því sem var í fataskápnum enn þá í geymslu. Ef þú hefur ekki saknað fatnaðarins sem er í geymslu mælum við með því að selja hann á Bland. Enda er einstaklega umhverfisvænt að koma ónotuðum flíkum í umferð. Fyrir peninginn getur þú keypt þér ferðalag á framandi slóðir og farið í slökun eða upplifað ævintýri sem næra líkama og sál. 

Kauptu öðruvísi inn

Ef þú hugsar um þá staðreynd að 20% af því sem þú kaupir þér notarðu 80% af tímanum getur þú séð í hendi þér að meginhlutanum af innkaupunum þínum mættir þú sleppa. Farðu yfir strimilinn og kauptu færri hluti inn fyrir þig og heimilið. Sem dæmi er góð regla að losa sig við 80% af því sem er í ísskápnum og versla inn meira magn af því sem þú notar til að fækka innkaupaferðum. Skoðaðu dagsetningar á gömlu sultunum, krukkumat og fleiru sem hefur staðið óhreyft síðasta árið.

Að sama skapi skaltu prófa að sleppa öllum fatainnkaupum tímabundið og leggja meiri rækt við að fötin þín sem þú notar líti vel út. Nostraðu við kasmírpeysuna eða settu hnapp á frakann/kápuna í staðinn fyrir að kaupa þér nýja flík.

Þú getur skoðað það sem þú hefur eytt í fatnað á árinu 2017, sett þann pening til hliðar jafnt og þétt yfir næsta ár. Og í lok ársins 2018 notað þennan pening til að kaupa vandaðan en fallegan hlut sem þú munt nota. Pareto-reglan minnir okkur einmitt á að kaupa færri hluti en vandaða.

Hættu að taka til og losaðu þig við hluti

Hver einasti hlutur þarf að eiga sinn stað til þess að þú getir komist hjá því að vera alltaf að taka til. Ef þú ert safnari að eðlisfari er áskorun að taka hluti til hliðar, en mundu að þú ert einungis að losa þig við hluti til að það sem eftir stendur fái að njóta sín.

Hér gildir það sama og með fataskápinn, hafðu það fyrir viðmið að losa þig við 80% af því sem þú ert með fyrir augunum. Stór hluti af þessu getur verið blöð og dót sem hefur ratað inn í húsið þitt. Allt sem er verðmætt og þú átt erfitt með að setja til hliðar getur farið í kassa sem er merktur árstíð, litum o.s.frv. Það er ekkert skemmtilegra en að geta skipt út hlutum, hafa meira rautt á haustin og ljósari liti á sumrin. 

Notaðu peningana þína öðruvísi

Ef þú skoðar útgjöldin þín yfir mánuðinn muntu komast að því að 20% af því sem þú kaupir kostar 80% af því sem þú eyðir. Ef þú hefur þetta hugfast muntu kaupa öðruvísi inn í matinn, þú munt leyfa þér aðra hluti og breyta til svo um munar fyrir budduna. Það er ekkert að því að leyfa sér lúxus, en til þess að upplifa lúxus má hann ekki vera hversdagslegur. Hafðu það hugfast.

Skapaðu aukin verðmæti í vinnu og leik

Við mælum með að þú skráir niður alla hluti sem þig langar að gera yfir daginn og svo þá hluti sem þú þarft að gera. Heilsufélagið er með frábæra dagbók sem hjálpar þér að halda utan um þessa hluti. Um leið og þú ert farinn að rita í dagbókina muntu sjá að margt af því sem þú gerir yfir daginn er eitthvað sem þú hefur engan áhuga á. Hvernig viltu skipuleggja daginn þinn í vinnunni? Hvaða fundir skipta máli og hverjir ekki? Ef þú miðar við að 20% af því sem þú gerir í vinnunni búi til 80% af verðmætunum, hvað getur þú gert meira af? Hverju geturðu sleppt?

Það sama má segja um einkalífið. Hvað viltu gera og hvað skiptir þig máli? Getur þú gert meira að því að vera með börnunum? Og hverju getur þú sleppt á móti?

Settu þig í fyrsta sæti

Að lokum viljum við minna á að þú sjálf/sjálfur ert það mikilvægasta í lífi þínu og barnanna þinna. Og ef þú setur ekki þig í fyrsta sætið getur þú ekki nært þá sem þú elskar. Hvaða hluti gerir þú 20% af tímanum sem gefa þér 80% af þeirri ánægjunni sem þú upplifir í lífinu? Af hverju gerir þú ekki meira af því og minna af öðru?

Haltu fund með fjölskyldunni um þá hluti sem þig langar að sleppa og sjáðu til hvort þið getið ekki verið sammála um að gera minna af einhverju og meira af öðru. Það kemur nefnilega á óvart hvað margt af því sem við höfum vanið okkur á að gera hér áður, minnkar í verðmætum og gildum með tímanum svo slepptu tökunum á öllu sem ekki skiptir máli í stóra samhenginu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál