Var 140 kíló og leið ekki vel

Reynir Traustason.
Reynir Traustason. mbl.is/Ómar

Reynir Traustason er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Hann segir í þættinum frá tímabilinu þegar hann var farinn að óttast um líf sitt vegna offitu og heilsuleysis og ákvað að taka sig í gegn. 

„Ég er reyndar líklega búinn að létta mig um 500 kíló samanlagt í gegnum tíðina. En þegar ég ákvað að taka mig í gegn fyrir alvöru, þá gerðist það eftir ein áramótin þegar ég var orðinn 140 kíló. Ég hafði hætt að reykja og bætti í kjölfarið á mig 30 kílóum. Ég átti flottustu pípurnar í bænum og hafði reykt mikið, en ég fór með dóttur minni út í garð og við grófum holu og ég jarðaði pípurnar og við fórum saman með hugvekju um að ég væri hættur að reykja. En í kjölfarið þyngdist ég hratt. Þegar ég var búinn að þyngjast um þessi 30 kíló ákvað ég að eina leiðin til að ná árangri með mig væri að gefa út yfirlýsingu opinberlega til að halda mér ábyrgum. Ég stofnaði blogg sem hét „baráttan við holdið“ og sagðist ætla á Hvannadalshnjúk eftir eitt ár og svo Mont Blanc í framhaldinu. Að vísu liðu þrjú ár þar til ég komst upp á Mont Blanc, en þetta var gæfa mín að gera þetta svona. Síðan 2010 er ég búinn að fara á yfir 2.100 tinda. Að vísu er hægt að fara fjórar ferðir á toppinn á Úlfarsfellið sama daginn og það telur sem fjórir tindar, en ég fór mest 350 fjallgöngur á einu ári. En ég held að þetta sé það sem hafi bjargað mér, af því að ég verð svo manískur þegar ég set mér markmið og geri allt til að standa við það. Mataræðið og lífsstíllinn byrjaði að batna samhliða fjallgöngunum.

Ég veit ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki tekið mig í gegn fyrir tíu árum. Ég var reykingamaður, ég var offitusjúklingur og svo var ég í versta djobbi á Íslandi sem ritstjóri DV með alla streituna sem því fylgdi. Nú hef ég tekið reykingarnar út, létt mig og lét svo reka mig af DV!“

Reynir, sem hefur nú gífurlega ástríðu fyrir útivist, segist telja að stóra málið í samfélaginu sé að reyna að stoppa faraldur heilsuleysis og lífsstílssjúkdóma. 

„Þú getur bjargað lífi manns með því að fá hann til að taka þátt í útivist. Hvort sem það er þunglyndi, athyglisbrestur eða aðrir lífsstílskvillar, það byrjar allt að lagast þegar þú ferð út í náttúruna og labbar á fjöll. Mér finnst þetta vera stóra málið á næstu árum, að við hjálpum fólki að bjarga sér frá sjálfu sér. Þegar lífsstílssjúkdómar eru farnir að drepa flesta er þetta stóra málið. Þeir stjórnmálamenn sem átta sig á þessu og setja lýðheilsu í forgang, þeir munu gera mikið gagn. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig á að útfæra það, en við verðum að gera eitthvað í þessum málum. Það er eitt að vera með fitufordóma, en annað að vera á móti því að fólk sé að drepa sig úr heilsuleysi.“

Í þættinum ræða Reynir og Sölvi um sjómennskuna, áratuga feril í fjölmiðlum, hvernig Reynir tók heilsu sína í gegn þegar hann óttaðist um líf sitt og margt fleira. 

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is

mbl.is