Gísli Marteinn hætti í pólítík eftir leiðinlegan fund í Valhöll

Gísli Marteinn Baldursson.
Gísli Marteinn Baldursson. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Gísli Marteinn Baldursson ákvað að hætta í borgarstjórn þegar hann hafði setið leiðinlegan fund í Valhöll þar sem hann var skammaður fyrir að vilja gera Reykjavíkurborg grænni og bæta hjólasamgöngur. Gísli ræddi um lok stjórnmálaferils síns í hlaðvarpi Verzlunarskóla Íslands á dögunum. 

„Ég var á einhverjum hræðilega leiðinlegum fundi uppi í Valhöll þar sem var verið að skamma mig fyrir að vilja gera strætó betri, vilja hjólastíga, vilja að fólk myndi ganga, og vilja aðeins grænni Reykjavík, sem átti ekki upp á pallborðið hjá einhverjum mjög gamaldags, en ágætum körlum, sem voru þarna alveg eldrauðir í framan öskrandi á mig að ég væri kommúnisti að vilja gera grænni borg,“ segir Gísli. 

Hann segist hafa farið alveg bugaður út af fundinum og litið á símann sinn og þá tekið eftir ósvöruðu símtali frá þáverandi útvarpsstjóra, Magnús Geir Þórðarsyni. Magnús Geir bauð honum að taka við slottinu sem Silfur Egils hafði verið í. 

Allir búnir að vera með öllum á Íslandi

Gísli ræddi einnig um hvernig hann velur fólk inn í þættina sína Vikan með Gísla Marteini. Hann hefur stöku sinnum sætt gagnrýni fyrir að velja stjórnmálafólk inn í þættina. Hann tók dæmi þar sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, var á meðal gesta í þættinum í síðustu viku. 

„Það eru örugglega einhverjir sem segja „Hann var nú ekkert spurður einhverra erfiðra spurninga“. Mér finnst það bara allt í lagi. Það er líka bara gott fyrir lýðræðið og bara fyrir okkur sem samfélag að stjórnmálamenn sjáist stundum vera mannlegir, sjáist stundum bara vera þau sjálf að hafa áhuga á sessunaut sínum sem er að gera eitthvað allt annað. Eða áhuga á þorrablóti og fari í lopapeysu og fái sér brennivínsstaup í beinni útsendingu. Ókei hann er bara eins og ég. Ég held það skipti máli til þess að við lendum ekki í því eins og í Bandaríkjunum þar sem er eins og svakalegur skotheldur glerveggur á milli þín og stjórnmálamannsins,“ sagði Gísli. 

Hann segir það líka vera vandasamt að velja inn fólk með tilliti til þess hvernig fólk þekkist og hvort það hafi unnið saman. Hann segist vanda sig mjög við að velja inn fólk og raði miðum upp með nöfnum þeirra og íhugi vel hvernig samræðurnar muni ganga. „Svo eru náttúrulega allir búnir að vera með öllum á Íslandi líka,“ bætti Gísli við.

Þáttinn má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál