Fer stundum í framkvæmdir um páskana

mbl.is/Arnþór Birkisson

Sigrún Brynja Einarsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu ferðamála og nýsköpunar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, segir páskafríið uppáhaldsfríið hennar því þá er hægt að njóta án mikillar fyrirhafnar. Sigrún Brynja býr á fallegum stað í Vesturbænum með börnum sínum tveimur, sem eru komin yfir táningsaldurinn, og tveimur köttum.

Hún hefur síður en svo setið aðgerðarlaus í vetur.

„Það er aldrei verkefnaskortur í Stjórnarráðinu og þeir málaflokkar sem ég fæst við hafa verið í brennidepli undanfarin ár. Það hafa verið miklar áskoranir á sviði ferðamála eins og flestir vita, bæði í tengslum við gríðarlegan uppgang greinarinnar fram til ársins 2018 og svo hrun hennar í kjölfar kórónuveiru-faraldursins. Málefni nýsköpunar eru síðan þess eðlis að þau teygja anga sína um allt samfélagið og í ráðuneytinu er meðal annars unnið að þróun stoðkerfis nýsköpunarmála.“

Ertu mikil páskakona?

„Eins og á eflaust við um marga þá er páskafríið eiginlega uppáhaldsfríið mitt. Það er dásamlegt að fá fimm daga óslitið frí þar sem litlar sem engar væntingar eru um veisluhöld eða undirbúning og oft er dymbilvikan líka tilvalin til að lengja fríið enn meira. Mér finnst voðalega gaman að skreyta svolítið í tilefni hátíðarinnar og gera vel við okkur fjölskylduna í mat og drykk.“

Hvað gerir þú alltaf á páskunum?

„Ef þú spyrðir börnin mín að þessu myndu þau segja að ég hefði einstakt lag á að skipuleggja framkvæmdir á heimilinu í páskafríinu. Eitthvert árið málaði ég og endurskipulagði stofuna og núna langar mig óskaplega mikið að ráðast í smábreytingar á eldhúsinu. Það er hins vegar ófrávíkjanleg regla að ég borða páskaegg á náttfötunum fram eftir páskadegi og býð svo upp á lambalundir um kvöldið.“

Uppáhaldsblóm Sigrúnar Brynju eru túlípanar.

„Ég er dugleg að kaupa túlípanavendi þegar þeir fást í búðum. Gulir túlípanar eru vorið í hnotskurn fyrir mér. Mér finnst líka gaman að kaupa páskagreinar og stilla upp úti í glugga. Ég á síðan eitthvað af páskaskrauti, til dæmis gyllt egg frá Georg Jensen sem mér finnst gaman að hengja yfir borðstofuborðið. Ég keypti mér líka ægilega fallegan fjaðrakrans um daginn sem ég er nú þegar búin að hengja á stofuhurðina í staðinn fyrir jólakransinn sem fékk að hanga óvenju lengi uppi.“

Afkvæmi Sigrúnar Brynju föndruðu þessa páskaunga.
Afkvæmi Sigrúnar Brynju föndruðu þessa páskaunga. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fylgir starfi þínu mikið af ferðalögum?

„Ég myndi segja að ég hefði ferðast temmilega mikið á vegum vinnunnar fyrir faraldurinn. Núna hef ég ekki komið út fyrir landsteinana í meira en ár eins og margir. Það er merkilegt hvað hægt er að koma miklu í verk á fjarfundum þótt sum samskipti kalli auðvitað á að fólk hittist augliti til auglits. Ég verð samt að viðurkenna að ég væri alveg til í borgarferð með haustinu.“

Fyrir utan lambalundirnar á páskadag þá er ófrávíkjanleg hefð á heimilinu að bjóða upp á fiskmeti líka.

„Ég er með fisk á föstudaginn langa. Það er hefð frá ömmu minni sálugu sem var kaþólsk og fylgdi öllum helstu boðum og bönnum föstunnar. Eftir að dóttir mín gerðist grænmetisæta hef ég líka prófað mig áfram með nýja grænmetis- og baunarétti.“

Fór að stunda sjósund í vetur

Hún segir veturinn búinn að vera annasaman en ljómandi góðan fyrir hana persónulega.

„Ég tók upp á því að fara að stunda bæði sjósund og fjallgöngur nokkuð markvisst og mæli með hvoru tveggja til að halda í gleðina yfir dimmustu mánuðina. Svo er líka alltaf notalegt að kúra heima með teppi og góða bók.“

Áttu þér uppáhaldsleiðir til að gera helgarnar yfir vetrartímann skemmtilegar?

„Börnin mín eru alin upp við það að fá heimatilbúna pítsu á föstudagskvöldum og það er byrjunin á helginni hjá okkur. Síðan er nauðsynlegt að koma einhverri hreyfingu að, hvort sem það eru hlaup eftir Ægisíðunni eða að ganga í náttúrunni. Um helgar leyfi ég mér líka oft að dúllast í eldhúsinu og elda rétti sem tekur aðeins lengri tíma að nostra við.“

Sigrún Brynja Einarsdóttir er komin í páskaskap.
Sigrún Brynja Einarsdóttir er komin í páskaskap. mbl.is/Arnþór Birkisson

Mikið um súkkulaði á páskunum

Hvað getur fjölskyldan gert til að styrkja vinaböndin á páskunum?

„Við grípum gjarnan í spil á hátíðum, sem dæmi CATAN eða Ticket to Ride. Mér finnst líka spurningaspil eins og Trivial Pursuit alltaf skemmtileg. Svo er óskaplega gaman að sitja saman og spjalla eða hlusta á tónlist og hlæja að öllu og engu.“

Nú eru páskarnir tími upprisunnar, gerir þú eitthvað sem minnir á það um páskana?

„Ég vildi að ég gæti sagt það, en það sem kemst næst því er líklega það að vakna við kirkjuklukkurnar í Landakoti á páskadagsmorgun, sem mér finnst alltaf hátíðlegt.“

Sigrún Brynja segir súkkulaðið áberandi í minningum um páskana frá því hún var barn.

„Já, minningarnar renna allar saman í eina súkkulaðiklessu í huganum. Mamma gæti hins vegar örugglega sagt þér frá páskunum þegar ég lá fárveik með mislinga alla frídagana. Ég held að henni hafi ekki þótt það sérlega skemmtilegt, sérstaklega þar sem ég var víst bókuð í bólusetningu rétt eftir hátíðisdagana. Það var kannski huggun harmi gegn að hún gat borðað páskaeggið mitt!“

mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is/Arnþór Birkisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »