„Ekki allir til í að vera sósaðir í hádeginu á Laugaveginum“

Dagný Berglind Gísladóttir segir hefðbunda steggjun og gæsun ekki henta …
Dagný Berglind Gísladóttir segir hefðbunda steggjun og gæsun ekki henta fyrir alla. mbl.is/Sunna Ben

Dagný Berglind Gísladóttir er annar stofnandi Rvk Ritual sem er vellíðunarfyrirtæki sem leggur áherslu á heilsu í breiðu samhengi. Hún vinnur með líkamlega og andlega heilsu í formi námskeiða, vörulínu og viðburða. Dagný er menntuð í ritstjórn og útgáfu en hefur lengi starfað hjá fyrirtækjum í heilsugeiranum, bæði sem ritstjóri og framkvæmdastjóri. 

„Ég, ásamt samstarfskonu minni Evu Dögg Rúnarsdóttur, er með marga bolta á lofti undir formerkjum Rvk Ritual. Ég trúi því að til að öðlast satt heilbrigði og vellíðan þurfirðu að hugsa jafn vel um hug og líkama. Ef þú ert alltaf í ræktinni og hunsar kvíða og stress ertu í raun ekki að skoða heildarmyndina. Við Eva erum að bralla ýmislegt og erum til dæmis með netnámskeiðin Self Mastery sem hafa verið mjög vinsæl í samkomubanninu, viðburði og fyrirlestra fyrir einstaklinga, hópa og fyrirtæki, „ritúal“-klúbbinn sem er mánaðarleg netaðild, vefverslun með vörur tengdar „ritúölum“ og vorum að setja á markað bætiefni með íslenskum jurtum fyrir hár sem heitir Hair Ritual.“

View this post on Instagram

A post shared by RVK RITUAL (@rvkritual)

Dagný er trúlofuð Davíð Rafni Kristjánssyni og hafa þau verið saman í sjö ár. Þau eiga einn lítinn dreng saman. 

„Samband okkar er í raun eins og hjónaband þó að við eigum eftir að gifta okkur. Við erum alltaf að leita að innblæstri til að skipuleggja brúðkaupið í okkar anda.“

Hvað er heilnæm gæsun og steggjun?

„Það er að mínu mati að taka „ritúala“ inn í gæsun eða steggjun og skipuleggja dag sem er uppbyggjandi fyrir sál og líkama, þar sem einstaklingurinn fær tól í hendurnar sem hjálpa til við að eiga í farsælu sambandi við sig sjálfan og þar af leiðandi maka sinn. Sambönd yfirhöfuð eru æðsta form jóga, því þar koma allar hliðar á þér í ljós. Heilnæm steggjun eða gæsun getur falið í sér heilnæma fæðu, hugleiðslu- og öndunarkennslu, stjörnukortalestur, freyðandi flæði sem er blanda af pílates, dansi og jóga með kampavín við hönd sem getur verið áfengt eða óáfengt. Tarotlestur og ritúal sem geta stutt við hjónabandið, innsýn inn í jógafræðin og hvernig þau geta nýst í paralífinu.“ 

Ættu Íslendingar að fara frá hefðbundinni gæsun og steggjun yfir í eitthvað heilnæmara?

„Það er auðvitað gaman að plana stuðdag, en oft eru brúðkaupin sjálf mikil partí og því huggulegt að gæsun eða steggjun sé eitthvað sem raunverulega undirbýr þig fyrir hjónaband á einhvern hátt. Það eru ekkert allir til í að vera með brúnku-tan og sósaðir í hádeginu á Laugaveginum og því kannski gott að það séu fleiri leiðir í boði fyrir mismunandi fólk sem verður samt sem áður að minnisstæðum degi. Það er heldur ekkert oft sem við náum öllu okkar nánasta fólki saman og þá gaman að nýta það í einhverja magnaða upplifun sem tengir fólk saman.“

Hefurðu heyrt hroðalega sögu um gæsun eða steggjun?

„Já, ég hef heyrt um brúnku sem endaði illa og var ekki búin að jafna sig á brúðkaupsdaginn; litun á hári sem var ekki hægt að laga nema með krúnurökun og slæm tattú sem var tekin ákvörðun um að fá sér seint að kvöldi. Samt sem áður held ég að þetta skapi alltaf góðar minningar, jafnvel þó að eitthvað klúðrist, og það sama held ég að eigi við um brúðkaupsdaginn. Það er svo mikil fullkomnun í ófullkomleikanum.“

View this post on Instagram

A post shared by RVK RITUAL (@rvkritual)

mbl.is