„Húðin var fullkomin þótt eiginmaðurinn muni það ekki“

Ágústa Kristjánsdóttir rekur snyrtistofu Ágústu.
Ágústa Kristjánsdóttir rekur snyrtistofu Ágústu.

Ágústa Kristjánsdóttir, eigandi Snyrti- og fótaaðgerðastofu Ágústu, á skemmtilegar minningar af brúðkaups-deginum. Hún gifti sig þann 23. janúar árið 1993 á Heimaeyjar-gosdaginn en bæði Ágústa og Gylfi Rútsson eiginmaður hennar eru frá Vestmanna-eyjum. Hún undirbjó húðina vel þótt eiginmaðurinn muni það kannski ekki. 

„Við giftum okkur í Neskirkjunni og vorum með fallegt boð fyrir vini og vandamenn á eftir á Hótel Sögu. Eftir boðið borðuðum við kvöldmat með okkar nánustu á Grillinu.

Maðurinn minn gisti hjá foreldrum sínum daginn fyrir brúðkaupsdaginn. Hann var búinn að vera lasinn í nokkra daga fyrir brúðkaupið. Mamma hans gaf honum sítrónute, lét hann fá hitabakstra og stjanaði við hann en allt kom fyrir ekki, honum batnaði ekki. Að hans sögn var hann með fjörutíu stiga hita þegar við giftum okkur.

Hann hefur oft talað um að hann muni ekki eftir því að hafa sagt já þennan dag í kirkjunni. Að hann hafi hreinlega verið með óráði þennan dag vegna veikinda. En við eigum fallegar ljósmyndir af brúðkaups-deginum og einnig myndbandsupptöku sem ég hef getað vísað í þegar hann dregur í efa hvað gerðist þennan dag.

Að öllu gríni slepptu þá hefur hjónabandið gengið vel. Við eigum dásamleg þrjú börn saman og tvö barnabörn. Svo fjölskyldan okkar vex og dafnar með tímanum.“

Passaði upp á húðina fyrir brúðkaupið

Ágústa hefur alltaf haft mikinn metnað þegar kemur að húðinni fyrir brúðkaup og það á einnig við hana sjálfa á brúðkaupsdaginn.

„Ég undirbjó húðina mína vel fyrir brúðkaupið og litaði og plokkaði mig fyrir stóra daginn. Ég fór í andlitsmeðferðir þar sem húðin fékk góða næringu og nudd. Síðan fór ég í handsnyrtingu. Það er svo fallegt að sjá vel snyrtar hendur á myndum frá þessum degi. Ég var með öll trixin í bókinni á hreinu og var einnig dugleg að setja á mig maska heima og notaðist þá við þau allra bestu krem sem fáanleg voru á þessum tíma.“

Hvað mælirðu með að brúðhjón geri fyrir stóra daginn tengt húðinni?

„Ég myndi byrja snemma með ákveðna húðrútínu. Ég myndi mæla með hreinsun húðar kvölds og morgna, kornamaska, rakamaska og myndi ráðleggja fólki að nota C-vítamínkrem svo húðliturinn verði jafn og fallegur á brúðkaupsdaginn.

Eins mæli ég með því að nota kornakrem á allan líkamann í sturtunni og að nudda þurr svæði sérstaklega. Síðan er mikilvægt að nota góð húðkrem á líkamann líka því kjólarnir eru stundum flegnir og því skiptir máli að húðin sé falleg og vel nærð.“

Ágústa mælir með að brúðhjón komi í allt að þrjár meðferðir fyrir brúðkaupið.

„Gott er að koma einum til tveimur mánuðum fyrir brúðkaupið í ávaxtasýrumeðferð. Sýrurnar fjarlægja dauður húðfrumur og endurnæra húðina. Þannig fæst ljómi á húðina, jafnari húðlitur og húðin verður betri í að halda í rakann. Meðferðin er einnig mjög gott dekur þar sem axlir, andlit og höfuð er nuddað með nærandi kremi og settur á góður rakamaski í lokinn.

Síðan viku seinna myndi ég fara aftur í sams konar meðferð og að þeirri viku liðinni myndi ég fara í Guinot Hydradermie-meðferð sem er mjög árangursrík rakameðferð fyrir andlit, háls, bringu og hina viðkvæmu húð umhverfis augun. Meðferðin örvar efnaskipti húðarinnar sem leiðir til örari endurnýjunar frumna og húðin fær aukinn raka og mýkt. Hydradermie er fyrir alla aldurshópa því notuð eru mismunandi gel eftir húðgerðum, allt eftir þörfum viðkomandi.“

Slétt húð og falleg augu vinsæl

Ágústa segir mikilvægt að fara í svona meðferðir því ákveðin húðgreining sé gerð sem fólk getur síðan fylgt eftir með réttu vörunum.

„Guinot-vörurnar eru þær allra bestu að mínu mati og við notum þær í allar meðferðirnar okkar. Þær andlitsmeðferðir sem ég nefni hér að ofan eru góðar fyrir þreytta og stressaða húð. Húðin verður svo falleg og ljómandi eftir svona kúr. Förðunin nýtur sín líka betur þegar búið er að meðhöndla og dekra svona við húðina.

Síðan get ég mælt með Guinot Eye logic sem vinnur gegn þrota og þreytu á augnsvæðinu. Sumir kjósa að setja fókusinn einungis á augun og taka nokkrar meðferðir til þess.

Ég mæli með að koma einu sinni til tvisvar í viku í allt að fjóra tíma fyrir stóra daginn þegar kemur að augunum.

Þessar meðferðir henta öllum og herrarnir eru mjög duglegir að koma í andlitsmeðferðirnar okkar.

Augnmeðferðin hentar eins mjög vel fyrir karlmenn líka.

Svo ekki sé talað um hversu gaman það er fyrir brúðhjónin að koma saman í fótsnyrtingu eða handsnyrtingu áður en af brúðkaupinu verður.“

Mælir með náttúrulegu útliti fyrir brúðkaupið

Hvað með augnaháralengingar?

„Já þær eru vinsælar fyrir brúðkaupsdaginn. Ég mæli með að konur komi fjórum vikum fyrir brúðkaup í lengingu og bæti síðan aðeins við augnahárin fyrir stóra daginn. Margar setja aðeins lengri augnahár og meiri sveigju, öðruvísi fyrir brúðkaupið. Ég ráðlegg konum eins að láta plokka og móta augabrúnirnar og að lita þær aðeins. En að halda sér á klassísku línunni fyrir brúðkaupið.“

Þau krem sem hún mælir með fyrir alla að fjárfesta í er C-vítamínlínan frá Guinot.

„Í þeirri línu er C-vítamín og sýra sem jafna húðlitinn og binda raka húðarinnar. Ég passa alltaf upp á húðina mína þegar kemur að sólinni því ég vil hafa húðina jafna, slétta og fallega. Fyrir þroskaðri húð eins og mína er gott að nota Age Logic-vörurnar frá Guinot. Ég mæli með þeim fyrir alla sem eru komnir yfir 25 ára aldurinn. Ég nota Rich Age Logic sem er nærandi og endurnýjandi andlitskrem fyrir fituþurra húð. Það eflir fituhjúp húðar en örvar jafnframt kröftuglega endurnýjunarþætti hennar. Eye Fresh-augnkremið er gott með stálstút fremst svo hægt sé að nudda augnsvæðið. Það krem inniheldur sem dæmi koffín og hydrocyte-efnasambönd sem gefa langvarandi rakagjöf svo eitthvað sé nefnt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »