Hertogaynjan hamingjusöm á 40 ára afmælinu

Meghan Markle hertogaynja er með einlæg skilaboð á 40 ára …
Meghan Markle hertogaynja er með einlæg skilaboð á 40 ára afmæli sínu. mbl.is/Archewell

Meghan hertogaynja af Sussex birti fallegt myndband af sér og leikkonunni Melissu McCarthy á síðu Archewell í tilefni 40 ára afmælisins í dag. Myndbandið er gert til að kynna góðgerðarverkefnið 40x40. Verkefnið snýst um að 40 vinkonur Meghan hertogaynju gefa hver fyrir sig 40 mínútur til stuðnings konum sem eru að finna leiðina aftur inn á vinnumarkaðinn.

Góðgerðarverkefnið er upphafið af vitundarvakningu um ástand kvenna í Bandaríkjunum og um víða veröld en áætlað er að um tvær milljónir kvenna hafi misst vinnuna í Bandaríkjunum vegna kórónuveirunnar og tugmilljónir kvenna um víða veröld séu í sömu stöðu. 

Meghan hertogaynja vonast til að hafa fiðrildaáhrif um víða veröld. 

Myndbandið, sem er í kringum tvær mínútur að lengd, er tekið upp á fallegu heimili hennar og Harrys Bretaprins í Montecito í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Myndbandið er það fyrsta sem hún gerir eftir fæðingu dóttur þeirra, Lilibet Díönu Mountbatten-Windsor, sem fæddist 4. júní síðastliðinn. 

Meghan Markle hertogaynja er brosmild og hamingjusöm í myndbandinu að gera það sem hún kann best: Að koma fram og láta gott af sér leiða. 

Smartland óskar henni innilega til hamingju með framtakið og 40 árin!

mbl.is