Engar páskahefðir annað en að njóta

Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir.
Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir.

Ég er svo sannarlega farin að hlakka til páskanna, sem mér finnst ótrúlega ljúfur tími,“ segir Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir sælkeri sem er nýfarin að vinna eftir fæðingarorlof með litlu dóttur sinni.

„Á páskunum er lítið stress og þá erum við fyrst og fremst að borða góðan mat og njóta. Annars eru páskarnir hjá mér aldrei eins, við förum oft upp í bústað á þessum tíma, annars erum við yfirleitt opin fyrir alls konar ævintýrum.“

Er eitthvað sérstakt sem þú eldar og bakar á páskunum?

„Ég baka yfirleitt mikið í kringum þennan tíma og finnst ótrúlega gaman að prófa eitthvað nýtt hverju sinni. Ég geri til dæmis alltaf eina páskaköku sem breytist frá ári til árs. Mér finnst alveg nauðsynlegt að borða lambalæri á páskunum, þar sem ég tengi þá máltíð mest við páska.“

Kökurnar oftast einfaldar í útliti

Guðrun Ýr er ekki mikið fyrir að skreyta matinn með páskaskrauti á þessum árstíma.

„Kökurnar mínar eru oftast mjög einfaldar í útliti og finnst mér skemmtilegra að hafa létt og vorlegt yfirbragð á þeim, svona til að fagna vorinu samhliða páskunum.“

Hún setur smávegis af skrauti upp hér og þar í húsinu. Nokkur egg og kanínur á víð og dreif.

„Mér finnst alltaf svo fallegt að kaupa grein og hengja á hana falleg pappaegg. Það er páskalegasta skrautið.“

Hvað gerið þið fjölskyldan skemmtilegt á páskunum?

„Þótt það sé smá klisja þá er það fyrst og fremst samveran með fjölskyldu og vinum. Við erum aldrei með fastmótaða dagskrá um páskana. Við skipuleggjum heldur páskana með stuttum fyrirvara, hvað við gerum, hvar við verðum og með hverjum.“

Pappaeggin eru vinsæl

Guðrúnu Ýri hefur lengi langað að gera sín eigin páskaegg, en hefur ekki enn þá komist í það verkefni.

„Eitt árið ætlaði ég að gera súkkulaðiegg sjálf. Ég á mót fyrir það, en það hefur aldrei orðið af því. Hver veit nema að það gerist í náinni framtíð. Ég útbjó vissulega pappaegg með hinu og þessu barnvænu fyrir strákinn minn þegar hann var lítill, og mun gera það fyrir dóttur mína núna.

En uppáhaldspáskaeggið mitt er frá Góu með piparfylltum lakkrís. Þeir sem þekkja mig vita að ég er forfallinn lakkrísaðdáandi. Við erum reyndar búin að kaupa þristapáskaeggið og spurning hvort það rati í toppsætið eftir smakk. Það kemur í ljós.“

Helstu minningar úr æsku frá páskunum á hún í tengslum við súkkulaðipáskaegg sem hún kunni vel að meta að fá að borða í upphafi dagsins.

„Ég man eftirvæntinguna sem fylgdi því að fá að borða páskaegg í morgunmat, þennan eina dag ársins. Það er mín helsta minning og lambakjötið sem var alltaf í matinn.“

Mini eggs-smákökubitar

115 g smjör

180 g púðursykur

1 egg

1 tsk. vanilludropar

280 g hveiti

1 tsk matarsódi

½ tsk. salt

1 msk. maizenamjöl

3 pokar mini eggs

100 g hvítt súkkulaði/rjómasúkkulaði

Stillið ofn á 190°C. Bræðið smjörið og setjið í hrærivélarskál ásamt púðursykrinum, þeytið saman í 1-2 mínútur. Bætið eggi og vanilludropum saman við og þeytið vel saman.

Þá er þurrefnunum blandað saman við, hveiti, matarsóda, salti og maizena og hrært léttilega saman, þangað til deigið er orðið blandað. Setjið súkkulaðieggin og niðursaxað súkkulaði saman við. Gott er að skilja nokkur egg eftir til að setja ofan á. Það gefur skemmtilegt útlit.

Ef þið eigið ferkantað kökuform þá er það tilvalið en hægt er að nota hringlaga eða það sem hentar og þið eigið. Deiginu er þjappað ofan í formið þannig að það sé um 1 cm að þykkt.

Einnig er hægt setja deigið á bökunarpappír, búa til rúllu úr því og vefja bökunarpappírnum utan um það, kæla deigið og skera það síðan niður í cm þykkar smákökur.

Kökudeigið sett inn í ofn og bakað 10-12 mínútur. Leyfið að kólna lítilega áður en það er tekið úr forminu og skorið í bita.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »