„Rétt valin blóm geta leikið við fleiri skynfæri en bara augað“

Eydís Ósk Ásgeirsdóttir blómaskreytir hjá Luna Studio.
Eydís Ósk Ásgeirsdóttir blómaskreytir hjá Luna Studio. mbl.is/Árni Sæberg

Eydís Ósk Ásgeirsdóttir, sem oftast er kölluð Dísa, starfar sem blómaskreytir og er eigandi Luna Studio. Dísa átti alls ekki von á því að blóm ættu eftir að verða hennar helsta ástríða í lífinu en faðir hennar útvegaði henni eitt sinn sumarstaf í blómabúð þegar hún var táningur og þar með hófst ferillinn. Í dag, 20 árum seinna, er Dísa afar reynslumikill blómaskreytir og nýtur þess að hafa fengið það tækifæri.

„Ég vissi alltaf að hjarta mitt væri í því að skapa en ég hafði aldrei leitt hugann að blómum og að þau ættu eftir að hafa svona mikla þýðingu fyrir mig,“ segir Dísa og viðurkennir að hafa ekki alltaf leyft sér að treysta á það að hafa skapandi starf að atvinnu. Dísa starfaði lengi í blómaversluninni Breiðholtsblóm og gerir Nönnu Viðarsdóttur, blómaskreyti og eiganda blómabúðarinnar, hátt undir höfði en Dísa segir Nönnu hafa kennt sér margt í gegnum tíðina og fyrir það sé hún þakklát.

„Nanna er kær vinkona mín í dag. Það myndi ég segja vera eitt það dýrmætasta við þennan bransa. Það er mikilvægt að mynda sambönd við fólk í faginu sem hjálpast svo að og styður við hvort annað,“ segir hún og er þakklát fyrir að vinna fyrir og með hæfileikaríkustu blómaskreytum landsins síðustu ár.

Dísa gerir dýrðlegar blómaskreytingar sem hámarka upplifun gesta jafnt sem …
Dísa gerir dýrðlegar blómaskreytingar sem hámarka upplifun gesta jafnt sem gestgjafa. mbl.is/Árni Sæberg

Persónueinkenni lykilatriði

Dísa hefur sótt fjölmörg námskeið í gegnum tíðina til að víkka sjóndeildarhring sinn, efla tækni og sækja innblástur vítt og breitt. Í janúar 2020 fór Dísa út til London og sótti þar blómaskreytingar námskeið á vegum McQueen's Flower School sem er blómaskreytingarskóli, staðsettur í hjarta miðborgarinnar. Þar sérhæfði hún sig í blómaskreytingum tengdum stærri viðburðum og fyrirtækjaskreytingum.

„Í dag rek ég fyrirtækið mitt Luna Studio og tek að mér skreytingar við hin ýmsu tilefni. Mér finnst ég mjög heppin að fá tækifæri til þess að aðstoða pör við að hanna skreytingar fyrir stóra daginn og skapa stór og blómleg augnablik með þeim. Og vonandi leggja mitt af mörkum til að gera hann að sönnum draumdegi,“ segir Dísa sem hefur haft puttana í ansi mörgum skreytingum hingað til og er hvergi nærri hætt.

María og Unnar giftu sig í Skýjaborgum í Landssveit, Dísa …
María og Unnar giftu sig í Skýjaborgum í Landssveit, Dísa sá um skreytingar. Bettina Vass Photography

„Ég mæli með að pör geri pláss fyrir blómaskreytingar í upphafi skipulags. Það er mikilvægt að pör séu búin að mynda sér einhverja skoðun á skreytingum fyrir stóra daginn og leiði hugann að því hvað það er sem það vill og langar. Ekki bara útlit veislunnar heldur hvað það er sem pör vilja upplifa,“ útskýrir Dísa. „Þegar ég vinn með pörum sem ætla sér að ganga í hjónaband þá vil ég fyrst og fremst fá að vita eitthvað um þau. Ég vil helst fá að vita hvert fólkið er í grunninn. Þetta kann að hljóma eins og ég sé að fá til mín par í sálfræðitíma en það er þó ekki alveg þannig,“ segir Dísa og hlær.

Dísa segist lesa í persónueinkenni fólks því það geti skipt sköpum þegar ákvarðanir eru teknar um blómategundir, litasamsetningar, form og áferð. Því sé mikilvægt fyrir hana að fá að kynnast viðskiptavinum sínum svolítið með góðum fyrirvara áður en stóri dagurinn rennur upp. „Það að spyrja parið leiðandi spurninga getur hjálpað mér að skilja hvers konar áhrif blóm og skreytingar hefur á þeirra karakter. Við erum öll jafn misjöfn og við erum mörg og sumir lifa „minimaliskum“ og skipulögðum lífstíl á meðan aðrir eru frjálslegri,“ útskýrir hún og segist jafnframt vera orðin nokkuð seig í að lesa týpur og manngerðir. „Sumir sjá liti þegar þeir heyra nöfn á fólki. Ætli ég sé ekki svipuð þegar kemur að blómaskreytingum. Ég sé fólk og hverju það klæðist, hvernig það ber sig, hvaða liti það velur, áhugamál þeirra og svo framvegis. Þá dettur mér strax í hug ákveðin blóm og litasamsetningar,“ segir Dísa og bendir á að það sé alltaf parið sem tekur lokaákvörðun um skreytingar stóra dagsins út frá sínum óskum.

Handbragð Dísu skín hér í gegn ásamt smáatriðum sem einkenna …
Handbragð Dísu skín hér í gegn ásamt smáatriðum sem einkenna persónuleika brúðhjónanna. Bettina Vass Photography

Skiptir máli á hvaða árstíð pör ganga að eiga hvort annað þegar litið er til blómaskreytinga?

„Árstíð getur skipt máli þar sem ekki öll blóm eru uppskorin allan ársins hring,“ segir Dísa. „Þá er gott fyrir pör að gera það upp við sig hvort að dagsetning, árstími eða ákveðnar blómategundir séu það sem skiptir þau meira máli. Það er þó vert að taka það fram að góður blómaskreytir ætti alltaf að geta fært fram samskonar upplifun með mismunandi blómum ef pör eru ekki föst á einhverri einni blómategund,“ bendir Dísa á. „Það getur margborgað sig fyrir pör að setja traust sitt á blómaskreytirinn,“ segir hún en verksamningur sem gerður er í upphafi á milli pars og blómaskreytis ætti að gera grein fyrir öllu slíku. 

„Verksamningur tryggir parinu staðfestingu á deginum og öllu sem hefur verið rætt um að gera. Samningurinn gerir slíkt hið sama fyrir mig,“ segir Dísa sem hefur haft þann háttinn á sínum viðskiptum. „Það sem er svo nauðsynlegt að ræða en engum finnst neitt sérstaklega gaman að tala um er kostnaðurinn,“ segir hún og telur eðlilega kostnaðaráætlun vera mismunandi eftir fólki. „Matur og vín er oft reiknað „per“ gest og kannski er eðlilegt að blómaskreytingar séu reiknaðar með svipuðum hætti,“ segir Dísa og telur eðlilega kostnaðaráætlun vera mismunandi eftir fólki og ákvarðist algerlega eftir því hverju hjónapör sækist eftir. „Það væri gott að líta á þetta eins og næringarhringinn, leyfa þeim atriðum sem skipta mestu máli deila stærstu sneiðunum og svo koll af kolli.“

Lifandi blóm geta gert fólki dagamun en Dísa segir viðhorf …
Lifandi blóm geta gert fólki dagamun en Dísa segir viðhorf fólks gagnvart lifandi blómum vera að breytast. mbl.is/Árni Sæberg

Dísa segir að tímanleg tilhögun geti sparað tilvonandi hjónapörum óþarfa fyrirhöfn og fjármuni. Hún segir viðhorf fólks til lifandi blómaskreytinga hafa tekið að breytast frá einum tíma til annars og telur að fólk kunni að meta lifandi blóm auknum mæli nú en áður. „Hvað er það í hversdagsleikanum sem við kunnum að meta og getur gert okkur dagamun,“ spyr Dísa. „Að fá dásamlegt vor heimsent eða senda vinum sömu upplifun getur lengt daginn og hjálpað til við andlega heilsu. Blóm eru svo mikið meira en bara skraut. Blóm geta verið ilm, lita og hljóð upplifun. Rétt valin geta blóm leikið við fleiri skynfæri en bara augað. Þú veist það ekki alltaf en þú upplifir það engu að síður.“ segir Dísa. „Blóm eru lifandi vara sem ekki er hægt að setja í frysti,“ segir hún með skírskotun í að blómanna þarf að njóta til hins ýtrasta á meðan þau eru í fullum skrúða.

Lifandi blóm setja svip sinn á borðhald og gerir það …
Lifandi blóm setja svip sinn á borðhald og gerir það enn glæsilegra. mbl.is/Árni Sæberg

Léttar og frjálslegar skreytingar vinsælastar 

Dísa mælir með að pör skipuleggi sig vel svo það geti átt möguleika til að samnýta blómaskreytingar, til dæmis með því að flytja þær á milli athafnar og yfir í veisluna. „Þannig nýtast þau sem best og allir njóta þeirra á meðan þau skína sínu skærasta.“ Tilvonandi hjónapör sem ætla sér að játast í sumar eru nú þegar farin að leita til Dísu og segist hún finna fyrir samhljómi í vali á meðal þeirra.

„Mér finnst eins pör sem ætla gifta sig í sumar vilji léttari skreytingar en áður. Ekki eins mikið grænt og meira frjálslegt en samt formað á sama tíma,“ segir Dísa. „Fyrst og fremst upplifi ég að fólk er farið að leyfa sér að hafa veislurnar eins og það langar að hafa hana. Ekki eins og það heldur að aðrir búist við því að þær verði. Það sem ég er ánægð með það,“ segir Dísa ákveðin og hlær. „Fjölbreytileikinn er svo fallegur og við erum ekki að gifta okkur fyrir neinn annan en okkur sjálf,“ segir Dísa sem ætlar sjálf að festa ráðahag sinn í sumar. Hún er að vonum orðin spennt fyrir því að fá loks upplifa dag drauma sinna og ganga að eiga Loga Jóhannesson en þau hafa verið par í sjö ár. 

,,Blóm geta verið ilm, lita og hljóð upplifun,
,,Blóm geta verið ilm, lita og hljóð upplifun," segir Dísa. mbl.is/Árni Sæberg

„Það vill svo til að við Logi ætlum að gifta okkur í sumar. Athöfn og veisla verða á Flórunni Bistro en létt og skemmtileg stemning mun einkenna stóra daginn okkar,“ segir Dísa sem hefur enn ekki gert upp hug sinn varðandi blómaskreytingar fyrir sitt eigið brúðkaup. „Ég held ég geti ekki valið alveg strax því það er svo margt sem kemur upp í hugann sem gæti komið til greina. Ég gæti verið búin að skipta um hugmynd svona 15 sinnum áður en það kemur að þessu. Skapandi og hrifnæmir hugar skilja hvað ég á við,“ segir hún og hlær. „Við fögnum ástinni fyrst og fremst svo finnst mér þetta ekki vera síður fyrir börnin okkar þrjú, en við erum samsett fjölskylda og ég gæti ekki verið hamingjusamari með hana. Þetta verður suðrænt og sumarlegt eins og Flóran bíður upp á en restin verður að koma á óvart,“ segir hún og brosir út í annað.

Hægt er að samnýta blóm og skreytingar til að spara …
Hægt er að samnýta blóm og skreytingar til að spara fyrirhöfn og tíma. mbl.is/Árni Sæberg
Dísa hefur verið starfandi í faginu í 20 ár og …
Dísa hefur verið starfandi í faginu í 20 ár og hefur einstaklega næmt auga fyrir fögrum smáatriðum. mbl.is/Árni Sæberg
Dísa og Logi ætla að gifta sig á Flórunni Bistró …
Dísa og Logi ætla að gifta sig á Flórunni Bistró í sumar. mbl.is/Árni Sæberg
Brúðguminn Unnar stendur við stórglæsilegan athafnarstaðinn sem Dísa hannaði og …
Brúðguminn Unnar stendur við stórglæsilegan athafnarstaðinn sem Dísa hannaði og skreytti eins og henni einni er lagið. Bettina Vass Photography
Brúðurin María skartaði blómakrans sem Dísa setti saman úr lifandi …
Brúðurin María skartaði blómakrans sem Dísa setti saman úr lifandi blómum. Bettina Vass Photography
Persónulegar og skemmtilegar skreytingar úr giftingarveislu þeirra Maríu og Unnars.
Persónulegar og skemmtilegar skreytingar úr giftingarveislu þeirra Maríu og Unnars. Bettina Vass Photography
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál