„Ég sá bara fyrir mér hjólastól og dauða“

Tinna Marína Jónsdóttir.
Tinna Marína Jónsdóttir.

Tinna Marína Jónsdóttir er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Hún var í besta formi lífsins þegar líf hennar tók snögga beygju og hún greindist með MS-sjúkdóminn. Hún lýsir í þættinum deginum örlagaríka þegar hún áttaði sig á því að eitthvað mikið væri að.

„Ég fór á æfingu þennan dag og mér fannst strax eins og það væri eitthvað ekki í lagi. Svo er ég að þurrka svita af enninu þegar ég finn að ég er alveg dofin vinstra megin og finn ekki fyrir enninu á mér. Svo strauk ég niður líkamann og fann að ég var dofin alveg niður alla vinstri hliðina niður í fót. Ég sá allt tvöfalt og byrjaði að slá mig utan undir, en af einhverjum furðulegum ástæðum fór ég ekki á spítala, heldur kláraði æfinguna. Ég sé það núna hvað það var galið. Ef þú ert dofinnn úti um allt ferð þú auðvitað á spítala! Á endanum hitti ég lækni og enda inni á spítala, þar sem voru teknar margar blóðprufur. Allt í allt 56 glös af blóðprufum á 3 dögum og líka skoðaður mænuvökvi. Svo er ég send heim í lyfjakúr, en er svo boðuð aftur á spítalann 19. júní 2019, sem er dagur sem ég gleymi aldrei. Þau vildu ekki segja mér strax nákvæmlega hvað væri að og sögðu að það myndi koma sérfræðingur daginn eftir, en ég þyrfti að byrja strax í lyfjagjöf. Svo þegar mér er sagt að ég sé mjög líklega með MS fór ég bara strax að hágrenja og leið eins og lífið væri hrunið. Það fyrsta sem ég hugsaði var að ég myndi enda í hjólastól og smám saman veiklast meira og meira þangað til að ég myndi deyja.”

Við tók erfitt tímabil, þar sem Tinna fór í gegnum allan skalann af tilfinningum og léttist mikið. En smám saman fór hún að snúa viðhorfi sínu og ákvað að gera allt sem í hennar valdi stæði til að gera það sem hún gæti gert.

„Ég fékk taugaáfall í september þetta ár og hrundi alveg niður í 45 kíló og fann enga von. Þá áttaði ég mig líka á því hve langt ég hafði gengið í að hunsa það sem líkaminn var að reyna að segja mér. Það var enginn einn dagur sem breytti öllu, en smám saman fór ég að byrja að sjá þakklæti í litlum hlutum og byrja að gera allt sem ég gæti gert til að gera það besta úr stöðunni. Ég byrjaði að hreyfa mig aftur um leið og ég gat. Ég byrjaði að lyfta bara stönginni, svo 5 kíló og svo 10 og koll af kolli. Ég hvíldi mig þegar ég þurfti, en ég fór að finna framfarir mjög hratt. Læknarnir bönnuðu mér aldrei að gera neitt, en sögðu mér að hvíla mig þegar ég þyrfti. Ég er mjög oft þreytt og get nánast alltaf lagt mig, þannig að ég er enn að læra inn á hvenær ég á að hvíla mig og hvenær ég á að halda áfram.”

Til að gera langa sögu stutta hefur Tinna nú náð að gera undraverða hluti með réttu hugarfari. 

„Ef að ég hefði ekki verið í svona góðu líkamlegu formi þegar þetta byrjaði er ég handviss um að þetta hefði farið verr, þannig að ég var alltaf staðráðin í að halda áfram að æfa mig. En mig grunaði aldrei að ég ætti eftir að keppa í lyftingum og það er eiginlega lyginni líkast. Fyrst þegar þjálfarinn minn nefndi þá hugmynd leist mér ekkert á það. En ég endaði á að láta tilleiðast og það var eiginlega óraunverulegt þegar ég var síðan komin á verðlaunapall í olympískum lyftingum. Í dag gjörsamlega elska ég að fara í lyftingabúnginginn sem mér fannst svo hallærislegur fyrst.” 

Hægt er að hlusta á brot úr þættinum á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál