„Það er skrýtin tilfinning að ganga inn á geðdeild Landspítalans“

Sölvi Tryggvason opnar sig í nýrri bók sem heitir Skuggar.
Sölvi Tryggvason opnar sig í nýrri bók sem heitir Skuggar.

Skuggar eftir Sölva Tryggvason kemur út í dag hjá Sögur Útgáfa. Í bókinni segir hann frá örlagaríkum tímum þegar ósönn slúðursaga fór á flug á samfélagsmiðlum. Hér má lesa einn kafla úr bókinni. 

„Í sjúkrabílnum hellist óraunveruleikatilfinning yfir mig. Viku áður hafði ég landað þremur nýjum samningum fyrir hlaðvarpið mitt, ferill minn hafði verið á betri stað en nokkru sinni og lífið virtist leika við mig. En hér er ég staddur liggjandi í sjúkrabíl á leiðinni inn á geðdeild. Lífið er viðkvæmt og það er stutt á milli hláturs og gráts.

Það er orðið dimmt, enda komið komið vel fram yfir miðnætti þegar við komum á áfangastað, sama stað og ég hafði komið á tveimur klukkustundum áður en af því að afgreiðslan var lokuð þurfti að kalla út sérfræðing og sjúkrabíl með tveimur mönnum til að koma mér aftur á byrjunarreit. 

Það er skrýtin tilfinning að ganga inn á geðdeild Landspítalans. Klukkan er orðin það margt að ég verð ekki var við aðra sjúklinga og starfsfólkið talar lágum rómi til að vekja engan.

Mér er vísað rakleitt inn í herbergi þar sem ég er einn míns liðs og er beðinn að tæma alla hluti úr vösum og hafa ekkert með mér sem ég geti skaðað mig með. Svo er mér réttur spítalasloppur og gefin svefntafla um leið og mér er tjáð að ég sé á sjálfsvígsvakt og því verði athugað á korters fresti alla nóttina hvort ég sé í lagi.

Það er erfitt annað en að hugsa um hvað hafi fært mig hingað. Ég ræddi notkun geðlyfja í bók minni Á eigin skinni og veit að skömm yfir geðsjúkdómum og -lyfjum er meinsemd sem verður að uppræta. Þar sem ég ligg í rúminu, eftir að hafa verið úrskurðaður á sjálfsvígsvakt, leita hins vegar alls kyns neikvæðar niðurrifshugsanir á mig.

Er það virkilega þannig að fagfólk óttist að ég svipti mig lífi? Er það raunhæfur ótti, þótt ég geri mér kannski ekki grein fyrir því? Það er undarleg tilfinning að leggjast til svefns á þessum stað, en skjólið og hvíldin eru svo sannarlega kærkomin. 

Áður en ég sofna hringi ég í foreldra mína til að láta þau vita að ég sé kominn í hendur fagaðila. Í því sem ég kveð þau hringir góður kunningi minn sem er þjóðþekktur maður. Hann hafði tjáð sig um mál mitt opinberlega strax eftir viðtalið, en virðist nú áhyggjufullur yfir því að það komi í bakið á sér.

Ég segi honum hvar ég sé og að ég geti ekki pælt mikið í þessum hlutum í augnablikinu, en þakka honum fyrir stuðninginn. Hann er hinn almennilegasti við mig og óskar mér góðs gengis. Stuttu síðar átti hann eftir að tjá sig aftur um mál mitt á samfélagsmiðlum og draga til baka stuðninginn við mig. Þó að það hafi verið sárt skil ég það nú mætavel í ljósi þess andrúmslofts sem var í samfélaginu á þessum tíma. Það var ráðist á alla sem studdu mig opinberlega af mikilli grimmd og heift og það fólk sakað um stuðning við ofbeldi. 

Þessi tiltekni maður var alls ekki sá eini af kunningjum mínum og vinum sem steig fram til að styðja mig opinberlega og dró það svo til baka. Þegar mér leið sem verst var ég mjög sár út í þessa einstaklinga, enda hafði ég aldrei beðið neinn að styðja mig eða taka afstöðu og það kom sér illa fyrir mig að þetta fólk drægi síðan stuðninginn til baka. En þegar ég sá síðar hvers konar pressa var sett á fólkið get ég skilið að það hafi hörfað.

Nær allir þekktir einstaklingar sem sýndu yfirlýsingu minni stuðning fengu á sig hótanir um að vera stuðningsmenn ofbeldis, jafnvel þó að yfirlýsingin hafi allan tímann verið sönn og ekkert hafi breyst í þeim efnum.

Það eitt að læka færsluna frá mér var nóg til þess að fólki væru send hótunarskilaboð. Það er fámennur en mjög hávær og reiður hópur sem stendur að baki því að þrýsta á bæði fólk og fyrirtæki sem er ekki sammála honum og hótar fólki á þann veg að það er skiljanlegt að það gefi eftir. Með tímanum hefur vægi þessa hóps minnkað, en þegar þarna var komið sögu hafði hann mikil tök á samfélaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál