Nýtt upphaf Steinunnar

Steinunn Sigurðardóttir er einn þekktasti fatahönnuður Íslendinga.
Steinunn Sigurðardóttir er einn þekktasti fatahönnuður Íslendinga. mbl.is

Fatahönnuðurinn Steinunn Sigurðardóttir hefur látið gera vorlínu fyrir vörumerki sitt STEiNUNN sem margir eru á að sé fagurfræðilega sú fallegasta til þessa. Búðin hennar í gömlu verbúðunum á Grandagarði er líkust draumaveröld, þar sem samspil lista, hönnunar, ljóss og efna koma saman og mynda hugarheim eins þekktasta hönnuðar landsins. Línan ber nafnið „Initium Novum“.

Dulinn fataheimur 

„Velkomin inn í dulinn fataheim Steinunnar!“ segir Steinunn hlæjandi þegar blaðamaður gengur inn í verslun hennar sem er með engan útsýningarglugga en guðdómlega birtu. „Áður en við ræðum málin hvað segir þú um að máta?“ spyr Steinunn. „Mér finnst mjög gaman að setja saman mismunandi áferðir á gínurnar og í þessu tilfelli nota ég prjónafatnað með mismunandi áferð og krumpaðan pappír. Áferðin af þessu öllu minnir helst á áferð nátt-
úru okkar. Það er sama hvert þú lítur. Þegar þú horfir í sjóinn, sandinn, bjargið eða hraunið, þá sérðu samspil mismunandi áferðar. Það er það sem ég horfi mest á og reyni að endur-vekja hér.“ 

Dulinn fataheimur Steinunnar Sigurðar er einstakur þar sem samspil ljóss, …
Dulinn fataheimur Steinunnar Sigurðar er einstakur þar sem samspil ljóss, lita og hönnunar er í fagurfræðilegu hámarki. mbl.is/Hari

Þegar blaðamaður mátar hverja flíkina á eftir annarri, finnur hann hvernig silkimjúk 100% merino-ullin liggur eins og annað skinn á húðinni. Þetta er lúxus sem erfitt er að finna.
„Prjónfestan á þessari flík er 16 sem er frekar fín prjónavoð. Hún er silkimjúk,“ segir fatahönnuðurinn með tækniþekkinguna á hreinu.

Hvað geturðu sagt mér um nýju línuna, „Initium Novum“? Er þetta ekki það fallegasta sem við höfum séð frá þér til þessa? „Nafn línunnar þýðir „Nýtt upphaf“. Ég leitaði til baka og fann tilfinninguna fyrir New York-borg en þar bjó ég í 13 ár. Línan er mín leið til að brjótast
út úr þægindarammanum sem ég hafði búið mér til. Sem hönnuður þurfum við alltaf að vera að finna okkur leið út úr þessum ramma. Hver lína er sjálfgefið framhald síðustu línu, en þessi lína varð aðeins meira. Og já takk fyrir að nefna að þér finnist hún fagurfræðilega sú allra fallegasta sem ég hef gert. Ég get verið sammála þér í því,“ segir Steinunn og útskýrir hvað hún á við með nýju upphafi. „Ég er að taka meiri áhættu með áferð, með sniðum og samsetningu. Ég er í raun að koma sjálfri mér á óvart, bæði með þessari línu og þeirri næstu sem er í framleiðslu núna. Ég er að fara með þessa línur lengra en ég venjulega geri.“

Steinunn segir að það sem hún hafi upplifað að undanförnu …
Steinunn segir að það sem hún hafi upplifað að undanförnu hafi komið henni á þann stað að hana langaði í nýtt upphaf. Ljósmynd/Anna Pálma

Búningur fyrir hlutverk dagsins

Steinunn er á lokametrum í meistaranámi í þjóðfræði og segir námið hafa fært hana inn í nýtt upphaf á ferli hennar. „Ég tengdi í rætur mínar, fór að lesa heimspeki og sjá heiminn frá öðru sjónarhorni. Þjóðfræðin byggist á því að skoða hversdagslífið sem við öll þekkjum svo vel. Allt sem okkur er sameiginlegt og við tökum sem sjálfsögðum hlut í dag. Fatnaður er mjög stór hluti af hversdagslífinu, við þurfum jú öll að klæða okkur. Fyrir mér er fataskápurinn best geymda leyndarmál einstaklingsins. Einstaklingurinn stendur andspænis fataskápnum daglega og velur sér búning fyrir hlutverk dagsins.“ Steinunn segir að sama skapi fagurfræði okkar koma að miklu leyti í gegnum uppeldið á okkur. „Við lærum af foreldrum okkar að klæða okkur, þau benda okkur á að í snjó notum við úlpur og í rigningu notum við regnkápur til að verja okkur gagnvart veðri og vindum. Við lærum að reima skó og að velja okkur fatnað fyrir ákveðin tilefni.“

„Initium Novum“ er ný lína frá Steinunni Sigurðardóttur undir merkjum …
„Initium Novum“ er ný lína frá Steinunni Sigurðardóttur undir merkjum STEiNUNNAR. Ljósmynd/Anna Pálma

Blaðamaður rekur augun í gráa peysu með mynstri sem minnir á gamalt íslenskt handverk og Steinunn útskýrir. „Þetta munstur er unnið upp úr mynstri sem Halldóra Bjarnadóttir, frumkvöðull í textílfræðum, vann á sínum tíma. Á þennan hátt tengi ég margt af því
sem ég geri við Ísland og arfleifð okkar. Ég leita eftir fagurfræði minni í íslenskan grunn, það alltaf spurningin hvenær við stöldrum við í námi okkar í fagurfæði og hvenær við höldum áfram að þróa og læra meira. Ég ætla að halda áfram með mína fagurfræði það sem eftir er
ævinnar.“

Mörgum er kunnugt um að Steinunn leiddi prjónadeild Ralph Lauren í tvö ár, Calvin Klein í sex ár, síðar tók hún við prjónadeild Gucci. Hún var einnig listrænn stjórnandi fyrir La Perla áður en leið hennar lá aftur heim þar sem hana langaði að búa til umhverfi fyrir sig og fjölskyldu sína hér og búa til sína sögu, sitt líf. Hún stofnaði eigið vörumerki STEiNUNN sem margir kannast við. Steinunn er án alls vafa einn helsti sérfræðingur landsins í prjónaverki. „Já, á tímabili var ég stærsti kasmírframleiðandi Bandaríkjanna,“ segir hún hlæjandi. „Það voru skemmtilegir tímar. Að vera prjónahönnuður er að sumu leyti öðruvísi en að vera fatahönnuður sem notar efni. Þú kaupir ekki prjónavoð í metratali þú kaupir garn í kílóavís og kaupir þráðinn sem eftir á að vinna. Ég bý til mitt eigið efni í formi prjónavoðar.“

Steinunn útskýrir hvernig hún hafi flutt í gömlu verbúðirnar árið 2011 á þeim tíma sem enginn var að horfa til þessa svæðis. „Ég breytti húsnæðinu lítið því ég vildi taka sem minnst frá rýminu. Verbúð mín er ein af fáum sem hafa haldið upprunalegu útliti. Ég lýsi strúktúrinn í byggingunni frá gólfinu til að sýna hvað hún er skemmtileg.“

Í nýrri línu Steinunnar eru fjölmargir hlutir sem hægt er …
Í nýrri línu Steinunnar eru fjölmargir hlutir sem hægt er að setja saman, þannig getur hver og einn búið til sinn eigin stíl. Ljósmynd/Anna Pálma

Á nýjum slóðum

Spurð um kynningu á nýju línunni segir Steinunn. „Ég er að fara nýja leið með markaðssetningu vörumerkisins og hef verið að þróa þessa leið í einhvern tíma. Þessi fagurfræði sem ég aðhyllist í lífinu er að fæðast skemmtilega þar og viðtökur frá vinum og félögum innan greinarinnar hafa verið stórkostlegar. Eins er almenningur að taka vel við sér og ég er í samtali við fólk víða um heiminn með sölu á vörunni minni sem er einstakt tækifæri fyrir litla tískuhúsið mitt sem ég tók ákvörðun um að láta vaxa lífrænt með þessum hætti.“

Hvernig sviðsmynd sérðu fyrir þér í fatahönnun á Íslandi innan áratugar? Án allra hindrana?
„Þetta er skemmtilegasta spurning sem ég hef fengið lengi, gaman að fá að láta sig dreyma hér. Ég sé fyrir mér margar verslanir þar sem fatahönnuðir selja fatnað sinn. Íslenskir hönnuðir munu vera hvattir til að rannsaka og þróa og geta eignfært kostnaðinn og fengið stóran hluta af þeim kostnaði greiddan til baka. Þök verða afnumin á endurgreiðslunni, sem gerir það að verkum að Ísland verður frábært land til að sinna rannsókn og þróun og störf
fyrir unga hönnuði verða óteljandi í landinu. Virðisaukaskattur verður ekki lengur settur á íslenskhannaðan fatnað eða hönnun. Það telst sjálfsagt að íslensk hönnun sé hluti af einkennum Íslands eins og tónlistin, bækurnar og listin. Fjárfestingarfyrirtæki fjárfesta lítið í hverju fyrirtæki til að hægt sé að gefa þeim tækifæri á að komast upp á næsta þróunarstig, þannig myndast ákveðið aðhald, í staðinn fyrir að miklar fjárhæðir séu settar inn í fá fyrir-
tæki. Með þessu móti mun æskan ekki flytja úr landinu, heldur mun menntakerfið aðlagast breyttum tímum og lögð verður áhersla á menningu, listir, handverk og hönnun í skólum. Tækniþekking og teikning verður stór hluti af kennsluskrá unglinga og framhaldsskóla.

Steinunn Sigurðardóttir í versluninni sinni úti á Granda.
Steinunn Sigurðardóttir í versluninni sinni úti á Granda. mbl.is/Hari

Án allra hindrana

„Ísland mun bæta sig á sviði framleiðslu hér á landi og verður það í minni sviðsmynd í náinni framtíð því hér er engin alþjóðleg framleiðsla í dag fyrir hönnuði. Við munum búa til eftir-sóttar vörur með tækni og hugverki, hönnun og visku í landinu. Margar prjónavélar verða komnar til landsins og gæði þeirra framleiðslu er fyrir alþjóðlegan markað. Umhverfi ungra hönnuða mun taka stakkaskiptum þegar Ísland verður framarlega í nýrri iðnbyltingunni þegar við sjáum hefðbundin iðnfyrirtæki starfa með ungum hönnuðum eins og engri annarri
þjóð hefur tekist. Við munum sjá tæknifyrirtækin búa til vélar, sem tryggja heiðarleika í framleiðslu. Við verðum með bakland fyrir iðnaðinn svo sem íslensk herðatré, íslenskan gæða umbúðapappír og öskjur sem verslanir geta sett vöru sína í þegar einstaklingar kaupa hana,“ segir Steinunn dreymandi. En auðséð er að henni er niðri fyrir með þetta málefni sem er langt frá raunveruleikanum í dag. Steinunn er fyrsti fatahönnuðurinn til að hljóta fálkaorðuna. Fyrsti fatahönnuðurinn til að hljóta nafngiftina borgarlistamaður. Fyrsti fatahönnuðurinn til að hljóta Söderberg-verðlaunin skandinavísku, Indriða-verðlaunin, Menningarverðlaun DV og fyrsti Íslendingur til að hljóta Gidan – dönsku hönnunarverðlaunin. Að brjóta niður múra hefur reynst henni auðvelt. Hún hefur fyrst allra Íslendinga slegið í gegn á alþjóðavettvangi í sínu fagi.

Innan verslunarinnar er studio Steinunnar. VIðskiptavinir geta séð heiðarleikann og …
Innan verslunarinnar er studio Steinunnar. VIðskiptavinir geta séð heiðarleikann og fagurfræðina þegar þeir ganga inn í verslunina. mbl.is/Hari

Jólalög allan ársins hring

Hvað um verkefnið sem hún fékk í hendurnar með son sinn? „Sonur minn Alexander er minn æðri máttur. Hann er kennari og leiðtogi minn í þessu lífi. Hann er fjölfatlaður en flokkast ekki inn í nein venjuleg box þar sem hann hefur enga sjúkdómsgreiningu, sem ég tel ágætis blessun. Þá fær hann bara að vera hann, með öllum sínum kostum og gæðum.
Að lifa lífinu með honum er óneitanlega skemmtilegt ferðalag af ýmiss konar ævintýrum. Hann lifir í eigin heimi, þar af leiðandi fellur hann ekki inn í reglur og ramma sem
hið siðmenntaða þjóðfélag hefur sett okkur. Að kynnast veröldinni í kringum hann er einstakt tækifæri til að kynnast sjálfum sér upp á nýtt og læra að brjóta niður hinar hefðbundnu venjur og siði í okkar daglega lífi.

Ég hef ég lært meira af honum en hann af mér. Í dag er hann tuttugu og þriggja ára heilbrigður fjölfatlaður ungur maður og er án efa hamingjusamasta mannvera sem ég þekki. Það er mjög stutt í brosið, hann faðmar oft og innilega. Hann syngur eða raular helst á morgnana og jólalögin heyrast allt árið um kring sem færir ávallt bros á andlitið á mér. Heimili okkar er fullt af tækjum og hlutum sem hann þarfnast til að gera líf sitt betra. Hjólastólar og göngugrindur koma ekki í eintölu þau koma í fleirtölu, vinnustólar, sérútbúin reiðhjól, baðhúsgögn, sjúkrarúm, bolspelkur, fótaspelkur, sérútbúnir útiskór og inniskór. Hjólastólar hans búa til varanlegt lifandi málverk sem í stanslausum ferðum fram og til baka breytist og stækkar með hverju ári. Að sparsla og mála veggi er blessun í sjálfu sér sem einungis stendur í tvo daga, þá birtist lifandi málverkið aftur upp á nýtt með nýjum pensilförum,“ segir Steinunn með bros á vör. Það er auðséð að gleðigjafinn Alexander á hug hennar allan.

Litirnir eru gudómlegir í verslun STEiNUNNAR.
Litirnir eru gudómlegir í verslun STEiNUNNAR. mbl.is/Hari
Hver lína er framhald af þeirri síðustu. Hér má sjá …
Hver lína er framhald af þeirri síðustu. Hér má sjá herferðir Steinunnar frá liðnum árum. mbl.is/Hari
Gínurnar í verslun Steinunnar Sigurðar eru fjölmargar og eru listaverk …
Gínurnar í verslun Steinunnar Sigurðar eru fjölmargar og eru listaverk út af fyrir sig. mbl.is/Hari
Verslun Steinunnar Sigurðar á Granda.
Verslun Steinunnar Sigurðar á Granda. Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál