Skrifar undir fyrirsætusamning 97 ára

Iris Apfel á tískuvikunni í New York í febrúar 2014 …
Iris Apfel á tískuvikunni í New York í febrúar 2014 þá 92 ára. mbl.is/AFP

Fyrirsætan og tískugúrúið Iris Apfel hefur skrifað undir samning við eina virtustu umboðsskrifstofu í heimi, IMG Models. Það sem vekur sérstaka athygli er að Apfel er 97 ára, verður 98 ára í ágúst. Apfel er spennt fyrir komandi verkefnum eins og fram kemur í viðtali við hana á vef WWD

Síðustu tíu ár hefur Apfel öðlast heimsfrægð fyrir smekk sinn þótt hún hafi lengi starfað og vakið athygli fyrir einstakan stíl. Nú er hún komin með sömu umboðsskrifstofu og margar af eftirsóttustu fyrirsætum í heimi, eins og Gigi Hadid og Gisele Bundchen. 

„Ég er mjög spennt. Ég hef aldrei verið með almennilegan umboðsmann,“ sagði Apfel sem hefur hingað til séð um sín mál sjálf. Að lokum var það þó hönnuðurinn Tommy Hilfiger sem sagði að þetta gengi ekki og setti hana í samband við umboðsskrifstofuna. 

Ivan Bart hjá IMG-umboðsskrifstofunnu segir Apfel vera goðsögn með ótrúlega hæfileika. Hún sýni það og sanni að aldur er bara tala en ekki eitthvað sem skilgreinir fólk. 

Apfel segist ekki ætla keppa við yngri fyrirsætur á tískupöllunum en frekar einbeita sér að því að sitja fyrir eða vera í einhvers konar samstarfi við merki. Hún segist hafa unnið fyrir alls konar fyrirtæki á fyrirsætuferlinum sem hófst mjög seint. Hún hefur auglýst allt frá vodka og bíla yfir í snyrtivörur. 

Hún segir að fólk hafi áhuga á sér vegna þess að hún er alvöru og segi það sem henni finnist. Hún þakkar manninum sem ræður þarna uppi langlífið en móðir hennar varð 100 ára en faðir hennar dó ungur. 

„Ég lifi ekki fyrirmyndarlífi. Ég æfi ekki eins mikið og ég ætti að gera. Ég er að byrja að ganga aftur. Ég borða einfaldan mat, ég borða ekki skyndibita. Ég drekk mjög lítið. Ég reyki ekki. Ég reykti einu sinni fjóra pakka á dag. Ég hætti því fyrir 50 árum.“mbl.is