Gamlar gardínur öðlast nýtt líf hjá Birgittu

Birgitta Björt fatahönnunarnemi notar gömul efni og föt í nýja …
Birgitta Björt fatahönnunarnemi notar gömul efni og föt í nýja fatalínu.

Birgitta Björt Björnsdóttir er 22 ára nemi á öðru ári í fatahönnun í Listaháskóla Íslands. Hún og bekkjarfélagar hennar sjá hugmyndir sínar lifna við á tískusýningu á fimmtudaginn þar sem unnið er úr efnum úr fatasöfnun Rauða krossins. Birgitta segir magnað að sjá hvað skili sér í gámana en hún notar meðal annars gamlar gardínur í sína línu.

„Þetta er fyrsta línan sem við saumum sjálf. Okkar skil eru alltaf bara teikningar, skissur og jafnvel efnis- og litaprufur, þetta er fyrsta verkefnið sem við erum að sauma frá grunni og erum að nota efni frá Rauða krossinum,“ segir Birgitta. „Við þurfum líka að hugsa praktískt. Er hægt að sauma svona? Er eitthvað efni með þessari áferð?“

Birgitta og bekkjarfélagar hennar gátu ekki bara pantað rétta efnið heldur prófuðu sig áfram til að ná fram réttu áferðinni.

„Ég er að vinna með pönk og kjóla sem voru vinsælir í kringum 1700, stórar mjaðmir, stórar axlir og blanda saman. Ég byrjaði að leika mér með tjull. Gerði lokaprufu þar sem ég spaslaði yfir tjullið og var með leður undir þá kom svona áferð eins og hákarlaleður.“

Leðrið fékk Birgitta úr gömlum leðurjökkum en tjullið úr gömlum gardínum. Til þess að drýgja leðurefnið hefur hún svo verið að vinna með bútasaum. 

Áfanginn hefur verið kenndur í Listaháskólanum í nokkur ár en Birgitta segir að í ár hafi nemendur í fyrsta sinn fengið að sortera úr gámunum með starfsfólki Rauða krossins. Hún segir að það hafi verið munur á hvað kom frá hvaða hverfum. Í hverfum þar sem efnaðra fólk býr hafi komið mikið af merkjavörum en aðrir gámar voru fullir af fötum úr H&M, Zöru og Primark. Hún segir auk þess starfsfólk fatasöfnunar Rauða krossins sjá reglulega ekta Gucci og ekta Louis Vuitton.

Birgitta vann með hugmyndina um pönk og kjólatísku frá því …
Birgitta vann með hugmyndina um pönk og kjólatísku frá því um 1700.

Birgitta og samnemendur hennar eru meðvituð um mengun sem fylgir tískuiðnaðinum í dag en í náminu læra þau að vinna með það í stað þess að láta það koma niður á sköpuninni. 

Sjálf segist Birgitta alveg kaupa föt úr búðum eins og Zöru en það hafi þó snarminnkað eftir að hún byrjaði í Listaháskólanum. Hún segist lesa sér vel til áður en hún kaupir föt og reynir að finna nýjar búðir með náttúrulegar vörur eða föt saumuð við góð skilyrði. Hún segist ekki hafa áhuga á tísku sem snúist um að sýna að fólk eigi peninga og dettur ekki í huga að eyða mörgum mánaðarlaunum í eina tösku auk þess sem stór og dýr vörumerki huga ekki endilega betur að umhverfisvernd eða öðrum þáttum sem skipta hana máli. 

Fatahönnunarnemar fundu ýmislegt í fatasöfnun Rauða krossins.
Fatahönnunarnemar fundu ýmislegt í fatasöfnun Rauða krossins.

Tískusýningin fer fram fimmtudaginn 14. mars í leikhúsrými Listaháskóla Íslands, Laugarnesvegi 91, gengið inn um listkennsluinngang. Tískusýningin verður sýnd tvisvar, kl. 19 og kl. 20. Aðgangur er ókeypis en hægt er að panta miða á Tix.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál