Brúnkurútínan sem tröllríður öllu

Fleur Hobson er mikil brúnkudrottning.
Fleur Hobson er mikil brúnkudrottning. Skjáskot/Twitter

Allir sem á einhverjum tímapunkti hafa makað á sig gervibrúnku vita að það getur verið háskaleikur og margt sem getur farið úrskeiðis. Og það er fátt ljótara og sjoppulegra en illa áborin gervibrúnka.

Hin 16 ára gamla Fleur Hobson virðist vera meistari gervibrúnkunnar ef marka má þráð hennar á Twitter sem hefur tröllriðið netinu síðustu daga. Það sem vekur sérstaka athygli flestra sem rambað hafa á þráð Hobson er hversu gríðarlega vel henni tekst til, þá sérstaklega á höndunum sem eiga það til að vera erfitt svæði fyrir marga. 

1. Áður en þú setur á þig gervibrúnku er bráðnauðsynlegt sem þú þarft að vita og mun það breyta lífi þínu. Notaðu rakakrem á hverjum einasta degi ef þú ert með gervibrúnku. Það lætur hana endast lengur og mun auðveldara er að fjarlægja hana.

2. Kvöldið áður en þú ætlar að skella á þig brúnku þarftu að fjarlægja allar leifar af því gamla. Gerðu það með skrúbbhanska og sturtusápu eða skrúbb. Skrúbbaðu fast með hringlaga hreyfingum og gamla brúnkan ætti að renna af þér. 

3. Rakaðu þig svo alls staðar með raksápu og ef það er enn gömul brúnka eftir það skrúbbaðu hana í burtu með hanskanum. Hún rakar sig líka í andlitinu og segir að húðin hennar sé enn betri fyrir vikið.

Eins og sjá má er árangurinn nokkuð góður hjá hinni …
Eins og sjá má er árangurinn nokkuð góður hjá hinni ungu Hobson. Skjáskot/Twitter.

4. Eftir að þú kemur úr sturtunni skaltu bera á þig rakakrem og sofa með það. Það gefur svitaholunum tíma til að lokast svo þú fáir ekki svarta punkta. Ef þú berð strax á þig brúnku eftir heita sturtu færðu svarta bletti um allan líkama.

5. Daginn eftir skolarðu rakakremið í burtu með sturtusápu í kaldri sturtu. Það er mikilvægt að sturtan sé köld svo svitaholurnar opnist ekki aftur. Notaðu svo feitt rakakrem á olnboga, hné, naflann, handakrikann, fæturnar og hendurnar. Leyfðu rakakreminu að vera í að minnsta kosti 10 mínútur og skolaðu það svo af (með köldu vatni).

6. Loksins er komið að brúnkunni. Hún notar litina dark og medium frá St. Moriz. Dekkra kremið setur hún á allan líkamann með brúnkuhanska. 

7. Medium liturinn fer á hendurnar og fæturna og notar hún sólarpúðursbursta í verkið. Það er lykilatriði að nota ljósari lit þar því það festist mest þar. Þegar þú ert búin að setja á hendur og fætur áttu að nota sama bursta til að setja dekkra kremið á andlitið.

8. Hún er með kremið í um 8 klukkustundir, til dæmis á meðan hún sefur. Síðan þvær hún það af með volgu vatni, ekki heitu því annars rennur það af. 

9. Þurrkaðu þér mjúklega með handklæði og berðu rakakrem á þig. 

mbl.is