Lilja Pálma og Linda Pé verða fyrirsætur

Ísak Freyr Helgason hefur notið mikillar velgengni í fagi sínu …
Ísak Freyr Helgason hefur notið mikillar velgengni í fagi sínu hérlendis og erlendis. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er í raun að afsanna þessa kenningu, að þú þurfir margar mismunandi vörur til að líta sem best út. Ég elska að ýta undir fegurð, ekki hylja hana, og á námskeiðinu mun ég fara yfir hvað ég nota helst í förðunum mínum. Ótrúlega auðveld trix verða kennd svo þú getur farðað þig á skömmum tíma og fengið stórkostlega útkomu,“ segir Ísak Freyr Helgason en 21. mars næstkomandi mun hann halda förðunarnámskeið í Makeup Studio Hörpu Kára sem opið verður öllum sem hafa áhuga á förðun. Að sögn Ísaks verður námskeiðið með frönsku ívafi, enda eru þarlendar konur þekktar fyrir fallegan einfaldleika í förðun sinni. 

Óhætt er að segja að Ísak hafi notið mikillar velgengni í starfi förðunarfræðings frá ungum aldri en hann var einungis 17 ára gamall þegar Karl Berndsen réð hann sem aðstoðarmann sinn í sjónvarpsþáttunum Nýtt útlit. Í tæpan áratug hefur Ísak búið og starfað í London þar sem hann hefur farðað þekktar söng- og leikkonur og fyrirsætur. Það liggur því beinast við að spyrja Ísak hver séu bestu förðunarráðin sem hann hafi lært hingað til? „Það er nauðsynlegt að hugsa vel um húðina, drekka vatn og ávallt gæta þess að veita henni nægan raka. Einnig hefur orðatiltækið „minna er meira“ margsannað gildi sitt,“ segir Ísak.

Ísak farðaði m.a. söngkonuna Katy Perry fyrir Global Ocean Gala …
Ísak farðaði m.a. söngkonuna Katy Perry fyrir Global Ocean Gala í Monte Carlo. AFP

Ungar fyrirsætur sem laga myndirnar fyrir Instagram

Andstæðan við hina náttúrulegu förðun er líklega, í huga margra, hin svokallaða „Instagram-förðun“ þar sem mörg lög af förðunarvörum eru borin á andlitið.

„Ég fagna fjölbreytileika í förðun og vil að fólk geri nákvæmlega það sem það vill en persónulega finnst mér of langt gengið. Fólki er sagt að það þurfi margar mismunandi vörur til að vera í takt við tískuna,” bendir Ísak á og segist hafa unnið með ungum fyrirsætum sem hafa, þrátt fyrir náttúrlega fegurð sína, fundið sig knúnar til að breyta útliti sínu á Instagram með aðstoð tækninnar. „Ég hef séð ungar fyrirsætur taka myndir af sér á setti og svo lagað myndina til í myndvinnsluforriti áður en hún er sett á Instagram. Þær laga á sér húðina, minnka nefið og jafnvel stækka augun. Ég bara trúi ekki að þetta hafi jákvæð áhrif á fólk, sérstaklega þar sem þarna er verið að eltast við óraunhæfar kröfur. Fólk á að gera nákvæmlega það sem það vill til að líða vel en ég ætla að mæta á svæðið og kenna mína sýn á förðun kvenna,“ segir Ísak en fljótleg og fersk förðun verður í aðalhlutverki á námskeiði hans þar sem ýtt verður undir náttúrulega fegurð kvenna.

Linda Pé, Lilja Pálma og GDRN fyrirsætur 

Það er óhætt að segja að mikil spenna ríki fyrir förðunarnámskeiði Ísaks og náði spennan líklega hámarki hjá blaðamanni þegar Ísak tilkynnti nöfn fyrirsætanna sem hann mun farða. Þær Linda Pétursdóttir, fyrrverandi fegurðardrottning og athafnakona, Lilja Sigurlína Pálmadóttir, kvikmyndaframleiðandi og athafnakona, og tónlistarkonan GDRN munu sitja í stólnum hjá Ísaki er hann kennir nemendum réttu tökin í náttúrulegri förðun. Val Ísaks á fyrirsætum er sannarlega upplífgandi og höfðar til fjölbreytts hóps kvenna frekar en fyrirsætur á táningsaldri.

Léttur farði eða litað dagkrem fyrir þroskaða húð

Þegar kemur að förðun fyrir þroskaðri húð segist Ísak að minna sé alltaf meira. „Ég notast alltaf við léttari farða eða lituð dagkrem þegar ég er að farða þroskaðri húð. Ég elska ljóma og vinn mikið í kringum það. Það er mikilvægt að byrja á hreinni húð og gefa henni góðan raka áður en byrjað er að farða. Það eru ótal leyndarmál í veskinu mínu sem ég mun fara yfir á námskeiðinu,“ segir Ísak. Þegar kemur að ljóma vilja sumir meina að það kunni að ýta undir fínar línur, sérstaklega á augnsvæðinu, en hver er skoðun Ísaks á því? „Þetta er gott dæmi um eitthvað sem einhver sagði á sínum tíma og fólk tók til sín. Þetta er persónubundið en það er ekkert bann við að nota shimmer eða glimmer í augnförðun á þroskaðri húð. Ég geri það mikið og viðskiptavinir mínir elska útkomuna, en ljómi gefur oft förðuninni aukið líf. Mamma til dæmis elskar að nota glimmer og shimmer í augnförðun sína eftir að ég kenndi henni réttu tökin. Núna fer hún ekki út úr húsi án þess að hafa eitthvað glitrandi á augunum. Hún fílar sig og er ekkert að spá í hvað öðrum finnst. Nákvæmlega eins og það á að vera,“ segir Ísak að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál