Sagt að fara í brjóstastækkun eftir krýninguna

Priyanka Chopra.
Priyanka Chopra. AFP

Indverska leikkonan Priyanka Chopra varð fræg eftir að hún vann titilinn Ungfrú heimur árið 2000 aðeins 18 ára gömul. Hún fór fljótalega að reyna fyrir sér í kvikmyndabransanum og stakk leikstjóri upp á því að hún færi í brjóstastækkun og aðrar fegrunaraðgerðir. 

„Eftir smáspjall sagði leikstjórinn/framleiðandinn mér að standa upp og snúa mér í hring fyrir hann. Ég gerði það. Hann horfði á mig vel og lengi, mat mig og stakk því næst upp á að ég færi í brjóstastækkun, léti laga á mér kjálkana og stækka á mér rassinn,“ skrifaði Chopra í sjálfsævisogu sína Unfinished. „Hann sagði að ef ég ætlaði mér að verða leikkona þyrfti að „laga“ hlutföllin og hann þekkti frábæran lækni í LA sem hann gæti sent mig til. Þáverandi umboðsmaður minn var samþykkur.“

Chopra fór sem betur fer ekki eftir ábendingunum sem hún fékk og skipti um umboðsmann. Í viðtali við Metro segir hún að athugasemdirnar sem hún fékk þegar hún var ung hafi þótt eðlilegar í skemmtanabransanum. Hún var hvött til þess að tjá sig ekki um málið vegna framtíðar sinnar. 

„Þetta er svo eðlilegt að þetta kemur ekki upp í samtölum,“ sagði Chopra. Hún sagði þetta hafa átt sér stað snemma á ferlinum og hún aldrei sagt frá af hverju hún gekk út.  

Priyanka Chopra var krýnd Ungfrú heimur árið 2000. .
Priyanka Chopra var krýnd Ungfrú heimur árið 2000. . REUTERS

Chopra skorti lengi hugrekkið til þess að standa með sjálfri sér. Hún fékk oft að heyra það að hún ætti ekki að vera erfið, hún væri ný í bransanum og það væri ekki gott fyrir hana að vera með slæmt orðspor. Núna er Chopra hins vegar að nálgast fertugt og veit hversu óheilbrigð umræðan í garð kvenna er. 

„Ég féll líka fyrir þessu, jafnvel þótt ég líti á mig sem nútímalega klára stelpu. Með tímanum skildi ég að ég var skíthrædd,“ sagði Chopra.

Priyanka Chopra er heimsfræg leikkona í dag.
Priyanka Chopra er heimsfræg leikkona í dag. AFP
mbl.is