Svona eru búningarnir hjá Play

Flugfélagið Play fékk hjónin Gunna Hilmars og Kolbrúnu Petreu Gunnarsdóttur til að hanna fatnað á flugliða félagsins. Það kveður við nýjan tón og eru allir í strigaskóm, ekki 40 den og hælum. Efnið er teygjanlegt og lögð er áhersla á góða hreyfivídd í fatnaði. 

„Það var okkur heiður og mikil ánægja að fá að vinna með Play-teyminu og að hanna Play-fatnaðinn. Ferlið er búið að vera afar ánægjulegt enda einstakt að fá að fanga kraftinn í svona frábæru verkefni eins og Play er,“ segir Gunni. 

„Þegar við settumst niður með þessu kraftmikla teymi þá leist okkur afar vel á grunnstefið sem okkur var gefið til að hanna eftir. Þau vildu fara nýjar leiðir í takt við nýja tíma þar sem frjálsræði og þægindi voru meginstefið. Það fannst okkur spennandi og mikið tækifæri til að fara nýjar leiðir og óhefðbundnar,“ segir Kolbrún. 

Gunni og Kolbrún notuðu tækifærið og hentu út gömlum hugmyndum og segja að frjálsræðið hafi ráðið för við hönnun fatnaðarins. 

„Við vildum nota tækifærði og reyna að henda út flestum þeim gömlu stöðluðu hugmyndum sem flugfatnaður eða búningar hafa stuðst við hingað til. Við vildum auka þægindin, fækka reglum sem starfsfólk í þessum fagi þarf oft að fara eftir og gera heildarútlit og notkunarmöguleika Play-línunnar eins mikla og hægt er. Við leggjum það þannig upp að einstaklingurinn má í raun velja að klæðast stílum úr allri línunni og blanda þeim saman að vild,“ segir Gunni. 

Hvað gerir fatnað þægilegan? Er það sniðið? Efnið? Áferðin? Gunni segir að efnin séu öll með góðri teygju og að hreyfivídd sé mikil í fatnaðnum. 

„Við hugsum þetta meira í áttina að íþróttafatnaði en í áttina að júníformi,“ segir Kolbrún. 

Þau segja að rauði liturinn sem er í lógói félagsins hafi ráðið för en með honum nota þau hvítan og gráan lit. 

„Við nostruðum við hvert smáatriði eins og fóður, tölur, prent og fylgihluti og til að ramma inn þægindin þá eru íþróttaskór hluti af Play-línunni,“ segir Kolbrún og bætir því við að þau hafi lagt ríka áherslu á að vinna með framleiðendum og verksmiðjum sem væru ekki að fara illa með fólk og dýr. 

mbl.is