Kristján: Fékk símtal um hádegið

Kristján Finnbogason, hinn 41 árs gamli markvarðaþjálfari Fylkis, hljóp í skarðið fyrir Bjarna Þórð Halldórsson í kvöld og var hetja Árbæinga þegar þeir slógu FH út úr bikarkeppninni.

Hann varði þrjár vítaspyrnur FH-inga í röð í Kaplakrika og sagði við mbl.is að hann Bjarni og Haukur Ingi Guðnason aðstoðarþjálfari hefðu aðeins verið búnir að fara yfir þau mál.

Kristján sagði að það hefði komið upp um hádegið í dag að hann myndi spila leikinn. "Þá fékk ég símtal um að það hefði verið ákveðið að hvíla Bjarna," sagði Kristján.

Hann sagðist ekki vera í toppæfingu, væri stundum með á æfingum þegar vantaði markvörð og það væri ekkert mál að detta svona inn í einn og einn leik en hinsvegar væri það spurning hvort hann gæti spilað marga leiki í röð.

Kristján sagði að það væru litlir íþróttamenn sem svöruðu ekki fyrir sig eftir 8:0 tap og Fylkisstrákarnir hefðu sýnt í kvöld að þeir væru flottir, kraftmiklir og kynnu fótbolta.

Um óskamótherja sagði Kristján að verst væri að Grótta væri dottin út úr bikarnum en það yrði gaman að mæta KR-ingum.

mbl.is