Rúnar á heimleið en óvissa vegna meiðsla

Rúnar Már Sigurjónsson í leik með Val.
Rúnar Már Sigurjónsson í leik með Val. mbl.is/Ómar

Rúnar Már Sigurjónsson er á heimleið eftir helgina eftir að hafa verið í láni frá Val hjá hollenska úrvalsdeildarfélaginu Zwolle undanfarna mánuði.

Rúnar varð fyrir meiðslum fljótlega eftir komuna til Hollands og þau leiddu til þess að hann náði ekkert að spila með aðalliði félagsins.

„Ég veit ekkert hvenær ég get byrjað að spila á ný því þessi meiðsli sem eru í öðrum hælnum eru algjört spurningarmerki og erfitt að eiga við þau,“ sagði Rúnar við mbl.is í morgun og það er því alveg óvíst hvenær Valsmenn fá að njóta krafta hans á Íslandsmótinu sem hefst um næstu helgi.

Rúnar var tvímælalaust besti leikmaður Vals á síðasta keppnistímabili. Hann var í aðalhlutverki á miðjunni, lék alla 22 leiki liðsins, skoraði 7 mörk og lagði 9 upp. Í nóvember lék Rúnar sinn fyrsta A-landsleik, vináttulandsleik gegn Andorra, og skoraði þá annað marka Íslands í 2:0-sigri.

mbl.is