Markmaðurinn var þjáður í hálfleik

Cristian Martínez, markvörður Víkings, liggur eftir brot Patryk Stefanski og ...
Cristian Martínez, markvörður Víkings, liggur eftir brot Patryk Stefanski og samherjar hans umkringja hann og Þórodd Hjaltalín dómara. Ljósmynd/Alfons Finnsson

„Það var mjög gott að fá þrjú stig, þetta var erfitt allan tímann en þrjú stig eru þrjú stig,“ sagði Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ó., eftir 1:0 sigur á ÍA í fallslag í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. 

Ejub var ekki sérstaklega ánægður með síðari hálfleik sinna manna, en mun ánægðari með þann fyrri. 

„Ég er ánægður með varnarleikinn en ég er ekki ánægður með spilamennskuna í seinni hálfleik. Við byrjum leikinn vel og fáum einhver færi og við skorum mark í kjölfarið. Við vorum betri fyrsta hálftímann en þeir sóttu á okkur undir lok seinni hálfleiks þegar þeir fá mörg horn, þeir sköpuðu sér samt sem áður ekki mikið.“

„Við misstum hausinn þegar þeir verða manni færri, ég skil ekki hvers vegna. Við áttum að klára hálfleikinn og endurskipuleggja okkur. Við vorum svolítið þungir í seinni hálfleikinn, ég vildi sjá meiri kraft og skynsemi í seinni hálfleiknum. Spennustigið var hátt og þetta er nágrannaslagur. Við vorum að verja forskotið of mikið.“

„Allir voru að tala um að við yrðum bara með nokkur stig að móti loknu en núna erum við með 13 stig og það er nóg eftir af mótinu. Þetta var leikur sem við þurftum að vinna ef okkur er alvara um að halda sæti okkar í deildinni. Skagamenn sýndu samt kjark og þeir voru góðir í dag.“

Patryk Stefanski fékk tvö gul spjöld undir lok fyrri hálfleiks, en Ejub sá atvikin ekki nægilega vel. 

„Ég var 70 metra frá þessu og ég verð að skoða þetta betur. Markmaðurinn var mjög þjáður í hálfleik, það var sparkað í hann. Kannski hefði það verið betra fyrir okkur ef hann hefði ekki fengið rautt spjald, því við slökuðum á.“

Þorsteinn Már Ragnarsson fór meiddur af velli í upphafi seinni hálfleiks. 

„Þorsteinn fékk í nárann, hann var meiddur í allan vetur og hann hefur verið að spila mikið, hugsanlega of mikið. Hann er mikilvægur fyrir okkur og kannski ætluðumst við of mikið af honum. Ég vona að þetta sé ekki alvarlegt og verði klár í næsta leik,“ sagði Ejub að lokum.

Ejub Purisevic.
Ejub Purisevic. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is