Forréttindi að fá að taka þátt í þessu

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. mbl.is/Golli

„Það eru forréttindi að fá að taka þátt í þessum leik, stærsta fótboltaleik sumarsins, og við erum fullir tilhlökkunar,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH í knattspyrnu, fyrir bikarúrslitaleikinn gegn ÍBV sem fram fer á Laugardalsvelli á morgun.

FH-ingar eru að spila til úrslita í fyrsta sinn frá árinu 2010, en í fyrra voru það einmitt Eyjamenn sem komu í veg fyrir að FH færi alla leið og unnu 1:0 í undanúrslitaleik liðanna. Eru Hafnfirðingar að stíla inn á það að hefna fyrir þann leik á morgun?

„Nei, ég hafði í raun ekkert spáð í það. Við vitum það hins vegar að ÍBV er með gott lið og góða einstaklinga innan liðsins. Þjálfarinn er klókur og hefur unnið þennan titil áður svo við vitum það að þetta verður erfiður leikur,“ sagði Heimir.

FH-ingar eru að berjast við toppinn á meðan ÍBV er í harðri fallbaráttu. Skiptir það einhverju í svona úrslitaleik?

„Nei, þetta er bara einn stakur leikur og dagsformið skiptir miklu máli. Þeir fóru í þennan leik í fyrra og eru reynslunni ríkari, svo ef við ætlum að vinna bikarinn þurfum við að hafa virkilega fyrir hlutunum,“ sagði Heimir og vonast eftir góðri stemningu.

„Ég ætla að vona að fólk muni fjölmenna á leikinn, ég held að þetta verði skemmtilegur fótboltaleikur. Ég vona að FH-ingar mæti, það verður húllumhæ í Krikanum sem byrjar klukkan 12, hoppkastalar og söngvarar, svo það verður hægt að búa til góða stemningu fyrir leikinn,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert