Á ýmsu gengið í bikarnum

Úr frægum bikarúrslitaleik ÍBA og ÍA á ísilögðum Melavellinum þann …
Úr frægum bikarúrslitaleik ÍBA og ÍA á ísilögðum Melavellinum þann 7. desember 1969.

Úrslitaleikur bikarkeppni karla í knattspyrnu fer fram í 58. skipti í dag þegar FH og ÍBV leiða saman hesta sína á Laugardalsvellinum. Þar hefur úrslitaleikur keppninnar farið fram allt frá árinu 1973, en áður hafði leikurinn verið spilaður að hausti á hinum sáluga Melavelli í Vesturbæ Reykjavíkur frá því að fyrirkomulag bikarkeppninnar var tekið upp árið 1960.

Bikarkeppnin tók í fyrstu við af hinu svokölluðu haustmóti, og fór fram að loknu Íslandsmóti í september. Þar af leiðandi gat farið svo að úrslitaleikurinn færi fram mjög seint, en aldrei jafn seint þó og árið 1969 þegar Íþróttabandalag Akureyrar, ÍBA, fagnaði fyrsta og eina bikarmeistaratitli sínum á Melavellinum 7. desember eftir sigur á ÍA. Þess má geta að sama dag var Reykvíkingum afhent hið svokallaða Óslóarjólatré á Austurvelli, eins og rifjað er upp í bókinni Bikardraumar eftir Skapta Hallgrímsson um sögu bikarkeppninnar.

Leituðu skjóls vegna hagléls

Liðin áttust við í tveimur leikjum í úrslitunum, því þau skildu jöfn fyrsta sinnis, 1:1. Útilokað var að framlengja fyrri leikinn vegna myrkurs og var því leikið aftur viku síðar. Eins og gefur að skilja gat gengið á með öllum veðrum á þessum árstíma og í fyrri leiknum 30. nóvember var meðal annars gert hlé í síðari hálfleik svo að leikmenn og dómarar gætu leitað skjóls vegna hagléls.

Í seinni leiknum komst ÍA í 2:0 en sigurmark Kára Árnasonar í uppbótartíma tryggði ÍBA 3:2-sigur við ansi skrautlegar, ísilagðar aðstæður. Það má því segja að Akureyringar hafi fengið bikarinn í jólagjöf og þeim var vel fagnað við heimkomu fyrir norðan.

Árið 1973 var hins vegar í fyrsta sinn leikið eftir hinu nýja fyrirkomulagi sem nú stendur enn. Síðan þá hefur bikarkeppnin verið fyrr á ferðinni og lokið með úrslitaleik á Laugardalsvellinum í ágúst eða september.

Greinina í heild sinni má finna í 12 síðna sérblaði sem fylgir Morgunblaðinu í dag um bikarúrslitaleik karla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert