„Þurfum að blóðga þær“

Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég var bara allt í einu með fullt af skilaboðum í símanum og vissi ekkert hvað var í gangi. Ég er mjög ánægð, og bara mjög spennt, enda hef ég stefnt á þetta lengi,“ segir Guðný Árnadóttir sem í gær var í fyrsta sinn valin í íslenska landsliðið í knattspyrnu. Þessi 17 ára miðvörður FH er í landsliðshópnum sem síðar í mánuðinum fer í æfingabúðir til La Manga á Spáni og mætir þar Noregi 23. janúar.

Í bland við sinn „hefðbundna“ hóp valdi Freyr Alexandersson nokkra unga leikmenn. Hin 18 ára Agla María Albertsdóttir er á sínum stað og í hópnum eru einnig Selma Sól Magnúsdóttir og Anna Rakel Pétursdóttir, sem líkt og Guðný eiga eftir að spila sinn fyrsta A-landsleik. Alls væru raunar tíu leikmenn af 23 í hópnum gjaldgengir í U23-landslið, ef KSÍ tefldi slíku landsliði fram. Þar á meðal eru Andrea Rán Hauksdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir sem nú koma inn í hópinn eftir að hafa síðast verið í honum í júní á síðasta ári.

Freyr gaf skýrt til kynna að hann hygðist gefa ungu leikmönnunum tækifæri í ferðinni. „Við þurfum að blóðga þær,“ sagði þjálfarinn, og Guðný tekur því fagnandi: „Klárlega. Ég vona að ég fái nokkrar mínútur og það yrði alla vega mjög gaman.“ Þó að aðeins verði spilaður einn 90 mínútna leikur, við sterkt lið Noregs, er ferðin lengri og gefur bæði Frey og leikmönnum kærkomið tækifæri til æfinga og undirbúnings fyrir ár sem gæti orðið sögulegt.

Nánar er fjallað um íslenska kvennalandsliðið í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Guðný Árnadóttir og Selma Sól Magnúsdóttir í leik með yngri …
Guðný Árnadóttir og Selma Sól Magnúsdóttir í leik með yngri landsliðum Íslands. Þær eru báðar í A-landsliðshópnum. mbl.is/Eva Björk
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert