„Við Óli áttum ekki samleið“

Bergsveinn Ólafsson var fyrirliði Fjölnis áður en hann fór til …
Bergsveinn Ólafsson var fyrirliði Fjölnis áður en hann fór til FH fyrir tveimur árum síðan. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Heima er best,“ sagði Bergsveinn Ólafsson sem í dag skrifaði undir samning við uppeldisfélag sitt Fjölni eftir tveggja ára dvöl hjá FH. 

„Megin ástæðan fyrir þessum félagaskiptum er að við Óli (Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH) áttum ekki samleið. Út frá því hafði Fjölnir samband við mig og ég ákvað að taka slaginn því heima er best. Fjölnismenn sýndu mér mikinn áhuga og ég kann vel við mig í Grafarvoginum. Ég hlakka til ennþá betri tíma,“ sagði Bergsveinn en Ólafur tók við FH-liðinu í vetur af Heimi Guðjónssyni. Bergsveinn áréttar að ekki sé slæmt á milli hans og Ólafs persónulega heldur sé fótboltinn einfaldlega þannig að þjálfarinn veðji á þá leikmenn sem hann hefur mest álit á. 

„Þetta er bara partur af fótboltanum. Þetta er ekkert persónulegt. Þjálfarar fíla suma leikmenn en ekki aðra. Þannig er það bara. Hlutirnir geta verið fljótir að breytast. Þess vegna var flott að finna þessa lausn á málinu og ég er spenntur fyrir því að byrja aftur með Fjölni,“ sagði Bergsveinn þegar mbl.is spjallaði við hann í dag. 

Guðmundur Karl Guðmundsson.
Guðmundur Karl Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næstu ár gætu orðið mjög góð

Guðmundur Karl Guðmundsson gekk einnig aftur í raðir Fjölnis frá FH í dag. „Ég fékk á tilfinninguna að ég myndi ekki fá að spila eins mikið næsta sumar og mér finnst ég eiga skilið. Ég frétti af áhuga Fjölnismanna og niðurstaðan var sambland af þessu tvennu. Ég ákvað stökkva á þetta tækifæri. Ég hef fylgst með undirbúningsleikjunum hjá liðinu og Fjölnir hefur spilað á mjög ungu liði. Ég hef trú á því að næstu ár verði mjög góð hjá liðinu. Hér eru strákar sem maður tók eftir spriklandi í Egilshöllinni á árum áður þegar maður var sjálfur á meistaraflokksæfingum. Nú eru þeir orðnir meistaraflokksleikmenn. Það verður bara gaman að kynnast þeim og vonandi getur maður kennt þeim eitthvað. Þeir gætu átt eftir að hjálpa Fjölni að taka næsta skref í úrvalsdeildinni,“ sagði Guðmundur við mbl.is.

Ólafur Páll Snorrason
Ólafur Páll Snorrason mbl.is/Kristinn Magnússon

Leikmenn á besta aldri

Ólafur Páll Snorrason tók við Fjölnisliðinu í vetur af Ágústi Gylfasyni. Spurður um hvort væntingavísitalan muni ekki fara upp í Grafarvoginum við tíðindi dagsins sagði Ólafur það vera líklegt en var varkár í svörum varðandi markmiðasetninguna.  „Jú ætli það ekki. Alla vega hjá fólkinu í kringum félagið. En við Fjölnismenn vitum hvað við viljum og hvað við ætlum að gera. Þetta er eitt af þeim skrefum, að ná í uppalda Fjölnismenn og fá þá aftur til félagsins. Ekki tekst öllum félögum að gera það þegar um er að ræða leikmenn á besta aldri sem búa yfir mikilli getu. Eflaust verða væntingarnar meiri,“ sagði Ólafur en Fjölnir hefur verið mjög nálægt því að komast í Evrópukeppni en ekki tekist hingað til. 

„Við getum alla vega sagt að við erum að taka skref í rétta átt, hvort sem við stefnum á Evrópusæti eða eitthvað annað. Við erum á réttri leið,“ sagði Ólafur Páll við mbl.is. 

Gunnar Már Guðmundsson og Bergsveinn Ólafsson eru orðnir samherjar á …
Gunnar Már Guðmundsson og Bergsveinn Ólafsson eru orðnir samherjar á ný. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert