„Svolítið kúl“ ef Birkir fer á HM

Emil Hallfreðsson, Birkir Már Sævarsson og Ari Freyr Skúlason fyrir ...
Emil Hallfreðsson, Birkir Már Sævarsson og Ari Freyr Skúlason fyrir æfingu Íslands í San José í dag. mbl.is/Anna Marsibil

Það hefur enga sérstaka þýðingu gagnvart stöðu Birkis Más Sævarssonar fyrir HM í Rússlandi að hann hafi fært sig heim í íslensku deildina. 

Þetta sagði Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, fyrir æfingu liðsins í San José í dag en liðið mætir Mexíkó á Levi's leikvanginum í Santa Clara á föstudagskvöldið.

Heimir sagði þjálfarana þekkja til þess sem Birkir hefur fram að færa fyrir landsliðið og að utan þess skipti litlu fyrir hvar hann spilar. 

„Við vitum allir hvað Birkir Már getur og það er bara gaman ef það er leikmaður úr íslensku deildinni sem er í lokahópi í heimsmeistarakeppninni,“ sagði Heimir og hló.

„Það yrði í fyrsta skipti! Það væri bara svolítið kúl ef svo færi.“

mbl.is