Gefum þeim of mikla virðingu

Jón Guðni fagnar fyrsta landsliðsmarki sínu.
Jón Guðni fagnar fyrsta landsliðsmarki sínu. AFP

„Við byrjuðum erfiðlega of fáum strax mark á okkur, það var þungt," sagði Jón Guðni Fjóluson, landsliðsmaður í knattspyrnu, í samtali við RÚV eftir 3:1-tap gegn Perú í vináttulandsleik í New Jersey í nótt. 

„Við uxum hægt og örugglega inn í leikinn eftir það og við náðum að spila betur en við vorum að gera í byrjun. Síðari hálfleikurinn var svo bara einstefna."

Hann segir ekkert í leik Perúmanna hafa komið sér á óvart. 

„Það kom alls ekkert á óvart. Við vissum að þetta væri hörkulið sem við vorum að spila við í dag. Við gefum þeim kannski aðeins of mikla virðingu og komumst ekki nógu nálægt þeim. Það er boltinn sem þeir vilja spila."

Jón Guðni skoraði mark Íslands í leiknum og var það fyrsta landsliðsmark hans. 

„Það kemur góð hornspyrna og ég var fyrstur á boltann. Það telur hins vegar lítið í dag, því við töpuðum."

Hann segist ekki hafa fundið fyrir stressi í leikmönnum Íslands, en leikurinn er sá síðasti sem liðið spilar, áður en Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari velur hópinn sem fer á HM í Rússlandi. 

„Mér fannst ekki. Stemningin í hópnum var létt, það var ekkert svoleiðis," sagði Jón Guðni í samtali við RÚV. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert