Vondir hlutir gerast ef þú nýtir ekki færin

Orri Sveinn Stefánsson sækir að Gísla Eyjólfssyni á Kópavogsvelli í …
Orri Sveinn Stefánsson sækir að Gísla Eyjólfssyni á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna en hundfúll með úrslitin,“ sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, eftir 2:0-tap gegn Breiðbliki á Kópavogsvelli í 9. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Fylkismenn voru áræðnir í upphafi leiks og mun sterkari aðilinn lengst framan af en þeim tókst ekki að brjóta ísinn með marki.

„Að vera ofan á hér í 70 mínútur, fá einhverjar 18 hornspyrnur og urmul af fyrirgjöfum og góðum færum, við eigum að vera komnir yfir á þeim tímapunkti.“

„Að sama skapi er alltaf þessi hætta, þegar þú ert ekki að nýta færin þín. Þá geta vondir hlutir gerst og því miður gerast þeir hjá okkur í dag. Við erum auðvitað að spila við fínt lið Blika en mér fannst við vera ofan á í langflestu hér í kvöld.“

Helgi var þó stoltur af frammistöðu liðsins og segist ekki miklar áhyggjur af sumrinu hafa, takist liðinu að halda svona áfram þegar mótið hefst aftur eftir HM hléið.

„Við stigum hátt á þá, gáfum ekkert eftir og vorum að vinna flest návígi. Erum svo fljótir að koma boltanum í hættuleg svæði, það eina sem vantaði var bara markið. Ég er hundfúll með úrslitin en hrikalega stoltur af liðinu. Ef við höldum svona áfram eru okkur allir vegir færir.“

Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis.
Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert