„Mér fannst það mjög harður dómur“

Logi Ólafsson þjálfari Víkings.
Logi Ólafsson þjálfari Víkings. Skapti Hallgrímsson

„Við buðum FH upp á að spila sinn besta leik og varnarleikur okkar var ekki nógu góður. Við byrjuðum á að pressa þá og gefa þeim lítinn tíma. En síðan fá þeir dæmda vítaspyrnu sem mér finnst afar vafasöm eftir það voru þeir betri,“ sagði Logi Ólafsson þjálfari Víkings R. eftir 3:0 tap gegn FH á útivelli í kvöld.

„Meira að segja sá sem fékk vítaspyrnuna hjá FH bjóst ekki við að fá víti,“ bætir Logi við. 

„Mér fannst það mjög harður dómur. Það er ekki gott að lenda undir á móti FH. Við fáum svo á okkur tvö mörk til viðbótar sem við áttum ekki að gera. Þeir sköpuðu svo fullt af færum og við töpuðum fyrir betra FH liði í dag og verðum bara að sætta okkur við það.“

„Ég minnti mína menn svo á það að við lentum undir hérna 2:0 í fyrra og jöfnuðum leikinn en við náðum ekki að skapa nógu mikið af færum fram á við.“

„Það var meiningin að setja svolitla pressu á þá og þegar við værum inni á eigin vallarhelmingi að verjast vel. En þar vorum við á eftir í hvern einasta bolta.“

Hvað þurfa Víkingar að gera fyrir næsta leik?

„Við verðum að hittast á morgun og hreinsa þetta í burtu. Við eigum ekki leik fyrr en 1. júlí. Við höfum nægan tíma til að undirbúa okkur fyrir það og sýna okkar rétta andlit. Það er ekki annað í boði fyrir okkur,“ sagði Logi að lokum.

mbl.is