Connors sýndi loksins sitt rétta andlit

Bojana Besic var ánægð með sigur KR í kvöld.
Bojana Besic var ánægð með sigur KR í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

KR sigraði ÍBV 3:2 á Alvogen-vellinum í Pepsi-deild kvenna í kvöld. Þetta var fyrsti sigur KR-stúlkna síðan þær unnu Selfoss í fyrstu umferð mótsins.

Bojanu Besic þjálfara KR var augljóslega létt þegar mbl.is náði tali á henni eftir leik. „Ég er rosalega ánægð. ÍBV er með mjög sterkt lið. Eftir að það er búið að ganga svona illa hjá okkur að koma hér og taka sigur, sérstaklega eftir að lenda 2:0 undir, ég get ekki verið ánægðari.“

KR var lengi í gang og fyrstu 25 mínúturnar voru eign ÍBV. En að þeim loknum tóku KR-stelpur frumkvæðið og unnu að lokum sanngjarnan 3:2 sigur. Þegar Bojana var beðin um að útskýra af hverju þær byrjuðu svona illa sagði hún að liðið hefði ekki gott sjálfstraust: „Við unnum fyrsta leikinn okkar en við höfum tapað öllum leikjunum okkar síðan. Í leiknum á móti HK/Víkingi og Grindavík vorum við miklu betri í leiknum en töpum samt. Þannig að við byrjum bara stressaðar. En um leið og við komumst yfir það tökum við yfir leikinn.“

Shea Connors átti góðan dag í KR liðinu og skoraði tvö mörk. Bojana var ánægð með frammistöðu hennar: „Þegar við vorum að spá í að fá hana hingað var þetta einmitt það sem við sáum á klippunum. Hún sýndi sitt rétta andlit í dag og vonandi heldur það áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert