„Gáfum leikinn frá okkur á fimm mínútna kafla“

Geoffrey Castillion skorar fram hjá Gunnleifi Gunneifssyni.
Geoffrey Castillion skorar fram hjá Gunnleifi Gunneifssyni. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Geoffrey Castillion, framherji Víkings Reykjavíkur, var nokkuð sáttur með spilamennsku liðsins í 3:2-tapi fyrir Breiðabliki í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Castillion lét vel til sín taka í fremstu víglínu og skoraði sitt fyrsta mark síðan hann sneri aftur til liðsins.

Hann kom Víkingum yfir í leiknum en Breiðablik skoraði tvö mörk á tveggja mínútna kafla undir lok fyrri hálfleiks, það síðara eftir skelfileg mistök í vörn liðsins.

„Við byrjuðum leikinn vel og komumst yfir en við gáfum leikinn frá okkur á fimm mínútna kafla. Við reyndum að koma aftur til baka, minnkuðum muninn í 3:2 en það var ekki nóg í dag. Við spiluðum mjög vel en gerðum nokkur einstaklingsmistök. En spilamennskan mun gefa okkur aukið sjálfstraust og það að við skoruðum tvö mörk. Við þurfum þrjú stig í næsta leik því það er stutt í fallbaráttuna,“ sagði Castillion.

Þetta var fjórða tap Víkings í röð í deildinni og því lá beinast við að spyrja Castillion hvað væri eiginlega að í Víkinni.

„Ég veit það ekki. Við þurfum bara að halda áfram. Sjálfstraustið er ekki mikið núna og við erum að sogast í fallbaráttuna. Við þurfum bara að sækja þrjú stig í næsta leik.“

Castillion sló í gegn hjá Víkingum síðasta sumar og skoraði þá 11 mörk í deildinni. Hann fór yfir til FH í vetur en var lánaður aftur til baka í Víkina eftir að hafa átt erfitt uppdráttar í Hafnarfirði. Markið hans í kvöld var hans fyrsta eftir endurkomuna og segist hann glaður að vera kominn aftur. Hann vildi þó ekki meina að það væri minni pressa á sér hér en hjá FH.

„Hérna hef ég meira frjálsræði í mínum leik og það hentar mér betur. FH er stórlið á Íslandi og er ekki að spila vel núna, svo það er mikil pressa á öllum þar. Hérna er meira svigrúm, en auðvitað þarftu líka að standa þig vel,“ sagði Geoffrey Castillion að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert