Stærsta tap Íslands í sautján ár

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mátti þola slæman skell í fyrsta leik sínum undir stjórn Eriks Hamréns og fyrsta leik sínum í Þjóðadeild UEFA. Sviss burstaði Ísland 6:0 í St. Gallen en að loknum fyrri hálfleik var staðan 2:0. Versta tap karlalandsliðsins í sautján ár.

Þá tapaði Ísland einnig 6:0. Gerðist það gegn Dönum á Parken í undankeppni HM 2002.

Svisslendingar fengu óskabyrjun þegar þeir komust yfir á 13. mínútu með fallegu marki frá Steven Zuber. Denis Zakaria bætti öðru marki við af stuttu færi á 23. mínútu en Hannes hafði þá varið skot frá Xherdan Shaqiri úr aukaspyrnu. Shaqiri skoraði sjálfur þriðja markið og gerði það einmitt úr aukaspyrnu utan af hægri kanti.

Eftir að staðan var orðin 3:0 var endanlega allur vindur úr íslenska liðinu og mörkin bættust við jafnt og þétt. Haris Seferovic skoraði fjórða markið með hnitmiðuðu skoti á 72. mínútu. Varamaðurinn Albian Ajet renndi boltanum í netið á 71. mínútu. Admir Mehmedi innsiglaði stórsigur Sviss með marki af stuttu færi á 83. mínútu. 

Ísland átti nánast aldrei möguleika að þessu sinni. Svisslendingar höfðu öll völd á vellinum og héldu boltanum langtímum saman. Þeir röðuðu mörkunum inn jafnt og þétt en þó án þess að gefa veruleg færi á sér í vörninni. Marktækifæri Íslendingar voru fá í leiknum. 

Þótt ótrúlegt megi virðast þá hefði sigur Sviss hæglega getað orðið stærri. Liðið fékk fjölda marktækifæra til viðbótar og tvívegis var mark dæmt af Sviss í leiknum vegna rangstöðu. 

Belgía er þriðja liðið í riðlinum en Ísland mætir Belgíu á Laugardalsvellinum næsta þriðjudagskvöld.

Sviss 6:0 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Íslenska liðið átti aldrei séns í Sviss og gríðarlega sannfærandi sigur heimaliðsins er staðreynd. Skelfileg frumraun hjá Erik Hamrén.
mbl.is

Bloggað um fréttina