Þurfum að vinna rest til að eiga möguleika

Eyjólfur Sverrisson
Eyjólfur Sverrisson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eyjólfur Sverrisson, þjálfari karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu skipað leikmönnum 21 árs og yngri, var brattur þegar mbl.is náði tali af honum á KR-vellinum í gærmorgun en liðið var þar við æfingar fyrir mikilvægan leik gegn Slóvakíu í undankeppni EM 2019 á þriðjudaginn kemur.

Ísland vann góðan 5:2-sigur á Eistlandi síðasta fimmtudag og getur náð öðru sæti riðilsins með sigri í Vesturbænum á þriðjudaginn og þar með haldið möguleikanum á að komast í umspil á lífi.

„Við þurfum að vinna restina af leikjunum til að eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Reynslan segir það, við erum búnir að tapa tveimur og gera tvö jafntefli og það er ekki nóg. Þetta verður mjög erfitt en það er möguleiki.“

Þetta er ósköp einfalt í rauninni

Ísland vann fyrri leik liðanna úti með tveimur mörkum gegn engu en Slóvakar hafa síðan þá skipt um þjálfara og segir Eyjólfur að hann og starfslið hans vinni hörðum höndum að því að leikgreina andstæðinginn.

„Þeir eru komnir með nýjan þjálfara og við erum aðeins að finna út úr því hvaða breytingar hafa orðið hjá þeim. Þeir unnu Ítalíu 3:0 og eru klárlega með hörkulið. Þetta er ósköp einfalt í rauninni; við þurfum að sækja með boltann og verjast án hans. Þeir eru sterkir varnarlega og við þurfum að vera klókir til að brjóta þá niður.“

Þá er standið á leikmannahópnum gott en flestir gátu tekið þátt í æfingunni í gær og ættu að vera klárir á þriðjudaginn. „Það eru einhver högg hér og þar og smá magapest líka en það er eitthvað sem allir hrista af sér. Ég reikna með að allir verði klárir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert