„Við verðum að rífa okkur í gang“

Steven Zuber og Ricardo Rodriguez fagna marki hjá Sviss í ...
Steven Zuber og Ricardo Rodriguez fagna marki hjá Sviss í leiknum. AFP

„Við vitum allir að þetta var ömurlegt,“ sagði Jón Daði Böðvarsson að loknum leiknum gegn Sviss í St. Gallen í gær en hann fékk úr litlu að moða í sókninni þegar Sviss sigraði 6:0.

„Ég hef svo sem tekið þátt í alls konar rugli áður og þetta er ekki í fyrsta skipti sem maður upplifir einhver leiðindi á fótboltavellinum. Það þýðir lítið að dvelja of lengi við þetta. Við verðum að rífa okkur í gang,“ sagði Jón Daði við mbl.is þegar úrslitin lágu fyrir og benti á að íslensku leikmennirnir hefðu verið býsna ólíkir sjálfum sér.

„Það sem einkennir íslenska landsliðið er gott skipulag, góður varnarleikur og gott hugarfar. Það var ekki til staðar í dag. Ekki hjá neinum okkar. Gæðin voru ekki nógu mikil í dag og við þurfum að horfa í spegil og spyrja okkur hvað við getum gert betur,“ sagði Jón Daði.  

Jón Daði Böðvarsson
Jón Daði Böðvarsson mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is