Hverjir mæta heimsmeisturunum?

Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Belgíu í síðasta mánuði.
Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Belgíu í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Emil Hallfreðsson er eini leikmaður íslenska landsliðsins sem öruggt er að getur ekki mætt heimsmeisturum Frakka í vináttulandsleik í knattspyrnu í Guingamp í kvöld.

Emil glímir við hnémeiðsli og situr hjá, en vonast til að geta mætt Sviss á mánudagskvöld í Þjóðadeildinni. Sverrir Ingi Ingason var veikur í gær og þeir Rúrik Gíslason og Hörður Björgvin Magnússon glíma við minni háttar meiðsli.

Búast má við að Ísland spili 4-5-1-leikkerfi. Markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson gæti fengið tækifæri í byrjunarliði en þó ber að hafa í huga að Hannes Þór Halldórsson hefur ekki átt fast sæti í liði Qarabag og honum gæti nýst vel að spila í kvöld. Ragnar Sigurðsson fær líklega einhvern annan en Sverri við hlið sér í vörninni, vegna veikindanna, mögulega Kára Árnason. Birkir Már Sævarsson verður væntanlega í sinni stöðu sem hægri bakvörður og Ari Freyr Skúlason vinstri bakvörður, þar sem Hörður er tæpur vegna meiðsla.

Gylfi Þór Sigurðsson verður sjálfsagt með fyrirliðabandið fremstur á miðjunni, og Jóhann Berg Guðmundsson kemur væntanlega aftur á sinn stað á hægri kantinum eftir meiðsli í síðustu leikjum. Fyrir aftan Gylfa vantar bæði Emil og Aron Einar Gunnarsson, og er líklegt að Birkir Bjarnason leiki þar, annaðhvort með Rúnari Má Sigurjónssyni eða Guðlaugi Victori Pálssyni. Rúnar gæti einnig leikið úti á kanti, líkt og hann gerði ágætlega gegn Belgíu í síðasta leik, en Arnór Ingvi Traustason kæmi einnig þar til greina, sem og Rúrik ef meiðsli hans trufla ekki.

Mögulegt byrjunarlið: Rúnar Alex – Birkir Már, Kári, Ragnar, Ari – Jóhann, Guðlaugur Victor, Gylfi, Birkir Bjarna, Rúnar Már – Alfreð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert