Vitaskuld leiðinlegt að fá þessar fréttir

Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari ræðir við Hannes Þór Halldórsson á æfingunni …
Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari ræðir við Hannes Þór Halldórsson á æfingunni í Brussel í dag. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Freyr Alexandersson stýrði fyrstu æfingu íslenska landsliðsins í knattspyrnu í Brussel síðdegis í dag en þá hófst undirbúningurinn fyrir leikinn gegn Belgum í Þjóðadeild UEFA sem fram fer í Brussel á fimmtudagskvöldið.

Aðeins tólf leikmenn tóku þátt í æfingunni en hinir tólf voru á fundi með landsliðsþjálfaranum Erik Hamrén á liðshóteli landsliðsins í Brussel. Fyrir hádegi æfir allur hópurinn en stór skörð hafa verið höggvin í landsliðið og síðast í gær heltist Gylfi Þór Sigurðsson úr leik vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í leiknum gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í fyrradag.

„Við erum búnir að missa stóra pósta úr liðinu eins og Gylfa og Jóhann Berg og það var vitaskuld leiðinlegt að fá þessar fréttir rétt áður en við förum í þennan erfiða leik á móti Belgunum. En við verðum samt að horfa á þetta þannig að það koma önnur tækifæri fyrir aðra leikmenn.

Að sjálfsögðu hefðum við viljað hafa Gylfa og Jóa með okkur enda tveir stórkostlegir leikmenn þar á ferðinni. Það eru margir í þessum hópi sem þurfa að fá að sýna sig. Þetta er kannski ekki þægilegasti vettvangurinn til að sýna sig en samt sem áður er þetta mjög góður vettvangur fyrir þá sem fá tækifæri á fimmtudaginn og svo er leikur við Katar á mánudaginn,“ sagði Freyr í samtali við mbl.is eftir æfinguna.

Frábært að endurheimta Aron

Freyr fagnar endurkomu landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar en tæpir fjórir og hálfur mánuður er liðinn frá því hann lék síðast með landsliðinu.

„Það er frábært fyrir okkur að endurheimta Aron. Það hefði verið óskastaða að í einhverjum af þessum sex leikjum áður en undankeppni EM gætum við notað alla okkar sterkustu menn en því er ekki að heilsa, því miður. En það þýðir ekkert að vera að dvelja við þetta heldur að horfa á þetta sem ákveðið tækifæri fyrir okkur. Auðvitað þrengja öll þessi forföll möguleikann á að ná í góð úrslit en við munum gera allt sem við getum til að ná góðri frammistöðu og um leið góðum úrslitum,“ sagði Freyr.

Andri Rúnar alltaf að bæta sig

Andri Rúnar Bjarnason, nýkrýndur markakóngur sænsku B-deildarinnar, var kallaður inn í landsliðshópinn í stað Jóhanns Bergs en enginn var kallaður inn fyrir Gylfa Þór.

„Andri Rúnar verðskuldar að fá tækifæri í hópnum. Hann er búinn að standa sig vel með Helsingborg og var frábær heima í deildinni í fyrra. Mér finnst hann alltaf vera að bæta sig þótt hann sé orðinn 28 ára gamall. Hann er búinn að skora fullt af mörkum og hann er líka að vinna vel fyrir liðið.

Ég hef fylgst lengi með þessum strák og það sem ég hef tekið mest eftir er að hann er búinn að bæta sig hrikalega mikið í því að halda boltanum. Það er gaman að fá hann hingað. Hann er frábær drengur. Við ætlum að bíða með að kalla inn mann fyrir Gylfa. Við erum með 24 leikmenn hérna en ef það verða einver skakkaföll í leiknum á fimmtudaginn þá munum við skoða það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert