Fjögur mörk og tvö rauð er KA vann Val

Guðjón Pétur Lýðsson kemur KA yfir í kvöld.
Guðjón Pétur Lýðsson kemur KA yfir í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA gerði sér lítið fyrir og vann 4:0-stórsigur á Íslandsmeisturum Vals í Boganum í 1. umferð Lengjubikars karla í fótbolta í kvöld. Valsmenn fengu tvö rauð spjöld í seinni hálfleik. 

Gamli Valsarinn Guðjón Pétur Lýðsson skoraði eina mark fyrri hálfleiks úr vítaspyrnu og var staðan í leikhléi 1:0 fyrir KA.

Á 12. mínútu síðari hálfleiks fékk Ólafur Karl Finsen sitt annað gula spjald og þar með rautt og aðeins níu mínútum síðar fékk Færeyingurinn Kaj Leo í Bartalsstovu beint rautt spjald. 

KA-menn nýttu sér liðsmuninn því Ólafur Aron Pétursson, Þorri Mar Þórisson og Torfi Tímoteus Gunnarsson skoruðu allir á síðustu tólf mínútunum og tryggðu KA sannfærandi sigur. 

Markaskorarar KA komu því allir til félagsins í vetur. Guðjón frá Val, Ólafur sneri aftur úr láni hjá Magna, Þorri Mar kemur frá Dalvík/Reyni og Torfi er kominn til KA sem lánsmaður frá Fjölni.

mbl.is