Farinn að klóra í þau fáu hár sem eftir eru

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, á hliðarlínunni í kvöld.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Eyþór Árnason

„Mér fannst þetta hrikalega flottur leikur,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, í samtali við mbl.is eftir 4:3-tap liðsins fyrir Stjörnunni í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Stjarnan var yfir í hálfleik, 2:0, og komst í 3:0 áður en Víkingar klóruðu í bakkann og héldu spennu í leiknum til enda.

„Ég var kannski að horfa á vitlausan leik, en mér fannst við stjórna honum frá a-ö, alveg frá byrjun leiks. Við spilum hrikalega vel út úr þeirra pressu. Svo kemur 0:1 og 0:2, en ég sagði við strákana í hálfleik að halda áfram. Þetta væri að koma, við værum betri en þeir og strákarnir fundu að þeir höfðu yfirhöndina,“ sagði Arnar, en Stjarnan skoraði hins vegar þriðja markið strax í upphafi síðari hálfleiks.

„Svo kom 0:3 og þá var maður farinn að klóra í þau fáu hár sem eru eftir. En sem betur fer þá héldum við áfram, 1:3, og spiluðum okkar leik. Þeir voru farnir að bakka og bakka. Við höfum gefið þessum toppliðum virkilega góðan leik, en uppskeran er mjög rýr,“ sagði Arnar, en Víkingar hafa gert jafntefli við Val og FH í byrjun móts.

Arnar er mjög ánægður með framlag sinna manna og undirstrikar hvað hann er með ungt lið í höndunum.

„Ég veit ekki hvað meðalaldurinn var hjá miðjunni hjá okkur, örugglega 21 ár eða svoleiðis. En frábærar frammistöður hjá nokkrum leikmönnum. Mér leiðist að taka einstaka leikmenn út, en Ágúst Hlynsson var bara frábær.“

Víkingurinn Guðmundur Andri Tryggvason (21) í leiknum í kvöld.
Víkingurinn Guðmundur Andri Tryggvason (21) í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Eyþór Árnason

Náði einni æfingu og vankaðist í fyrsta leik

Arnar segir að nú þurfi að halda áfram, það sé lítið sem vanti upp á að sigrarnir detti í hús.

„Við þurfum að bæta varnarleikinn, augljóslega, enda gengur ekki að fá á sig fjögur mörk. En við erum að gefa öllum þessum liðum góða leiki og sýnum að við eigum gott erindi í að ná góðum árangri í þessari deild.“

Guðmundur Andri Tryggvason kom á láni frá Start í fyrradag og fór beint í byrjunarliðið. Hann fór hins vegar meiddur af velli í síðari hálfleik og virtist hafa vankast.

„Já, hann fékk höfuðhögg og var kominn með smá ælutilfinningu. Eina í stöðunni var að taka hann út. Hann náði einni æfingu með okkur í gær og var óragur, flottur og spilaði vel,“ sagði Arnar Gunnlaugsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert