Gary Martin úti í kuldanum?

Gary Martin
Gary Martin mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki verður Gary Martin teflt fram í liði Vals í Árbænum í kvöld ef marka má frétt á Fótbolta.net þar sem fullyrt er að Englendingurinn hafi ekki æft með Val í gær. 

Þar kemur fram að Martin hafi í raun verið meinað að æfa með Valsmönnum í gær. Sé þetta rétt er hlaupin talsverð harka í samskipti Valsmanna og Englendingsins. 

Gary Martin er á þriggja ára samningi en fyrr í vikunni lýsti Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals því yfir að Martin mætti finna sér annað félag þar sem hann hentaði ekki leikstíl Vals. 

Valur mætir Fylki í kvöld í Árbænum í 4. umferð Pepsí Max deildarinnar. 

mbl.is