„Fyrsta markið breytti leiknum“

Pedro Hipólito fylgist með sínum mönnum í dag.
Pedro Hipólito fylgist með sínum mönnum í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA lagði botnlið ÍBV 2:0 í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í dag. Leikurinn var fremur rólegur og lítið um færi. Lengi vel leit út fyrir 0:0 jafntefli en góður endasprettur heimamanna í KA skilaði tveimur mörkum og víti sem fór í súginn. Eyjamenn fóru því tómhentir heim og var Pedro Hipólito þjáalfari þeirra þungur á brún eftir leik.

„Fyrsta markið breytti leiknum. Við það riðlaðist skipulagið hjá okkur og annað mark kom í kjölfarið. Þetta var fimm mínútna kafli hjá okkur sem gerði að engu fína spilamennsku okkar hinar mínúturnar. Skipulagið hjá okkur var gott í 75 mínútur og við vorum búnir að fá tækifæri á að skora.

Tvö mörk á fimm mínútunum drap okkur niður og þetta var aldrei spurning eftir það. Ég hefði sagt að jafntefli hefði verið fín úrslit og fram að fyrsta markinu var ekki mikið sem benti til þess að KA væri að fara að skora. Ef eitthvað var þá vorum við líklegri fram að því. Við verðum að taka skref fram á við og bæta okkur.

Við getum stjórnað úti á vellinum en verðum að fara að ná inn fyrsta marki leiksins. Það skiptir mjög miklu að nýta færin sem skapast. Nú þurfum við að ná góðum úrslitum í næsta leik til að létta á andanum og efla sjálfstraustið. Við þurfum hreinlega að vinna næsta leik,“ sagði Hipólito.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert