Ekkert sjálfgefið í þessum blessaða fótbolta

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Rúnar Páll Sigmundsson var eini þjálfarinn sem sá lið sitt vinna af íslensku liðunum fjórum sem léku fyrri leiki sína á Evrópumótunum í fótbolta í gær og í kvöld.

Stjarnan hafði betur gegn eistneska liðinu Levadia Tallinn 2:1 á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld en sá sigur hefði átt að geta orðið stærri.

„Það er ekkert sjálfgefið í þessu í þessum blessaða fótbolta. Að vinna eitt sterkasta lið Eistlands á heimavelli er bara gott en það sem ég er fúll með er að hafa fengið þetta á mark á okkur og það getur skipt sköpum á fimmtudaginn,“ sagði Rúnar Páll við mbl.is eftir leikinn.

Stoltur af mínu liði

„Heilt yfir þá fannst mér frammistaðan góð. Við fengum fullt af færum til að skora fleiri mörk. Við nýttum ekki vítaspyrnu og við áttum að fá annað víti og Eistarnir að missa mann af velli. Mér fannst fínn kraftur og árræðni í liðinu stóran hluta leiksins og ég bara stoltur af mínu liði en það er bara hálfleikur í þessu einvígi. Það er ekkert sjálfgefið að vinna Evrópuleiki og ég er ánægður að okkur tókst það,“ sagði Rúnar Páll.

Levadia er í öðru sæti í eistnesku deildinni og það er alveg ljóst að Stjarnan mun þurfa að hafa fyrir hlutunum í seinni leiknum til að komast áfram og mæta Espanyol í 2. umferðinni.

„Þetta eru atvinnumenn sem gera ekkert annað en að spila fótbolta. Það eru nokkrir öflugir leikmenn í þessu liði þeirra. Nú eru strákarnir búnir að þreifa á þeim í 90 mínútur og við vitum alveg hverjum við erum að fara að mæta. Við munum mæta vel undirbúnir í seinni hálfleik. Við eru reynslunni ríkari frá því í fyrra og við verðum á sama hóteli og þá og förum snemma út eða á mánudaginn. Félagið og stjórnin er að gera allt það besta fyrir okkur til undirbúnings fyrir seinni leikinn,“ sagði Rúnar Páll.

mbl.is