Getur ÍBV strítt FH í Eyjum?

Gunnar Heiðar Þorvaldsson hefur reynst Hafnfirðingum erfiður ljár í þúfu …
Gunnar Heiðar Þorvaldsson hefur reynst Hafnfirðingum erfiður ljár í þúfu á undanförnum árum en hann hefur nú lagt skóna á hilluna. mbl.is/Ómar Óskarsson

ÍBV fær FH í heimsókn í 9. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Hásteinsvöll í Vestmannaeyjum í dag klukkan 16. Eyjamenn eru í neðsta sæti deildarinnar með einungis fimm stig eftir fyrstu ellefu leiki sína en FH er í sjötta sæti með 16 stig.

Eyjamenn verða að fara safna stigum í hús ef liðið ætlar sér að forðast fall en Ian Jeffs var ráðinn þjálfari liðsins í vikunni og Andri Ólafsson, fyrrverandi fyrirliði ÍBV, aðstoðarmaður hans. Þá þurfa Hafnfirðingar nauðsynlega á sigri að halda til þess að blanda sér í Evrópubaráttu en liðið er þremur stigum frá Stjörnunni sem er í fjórða sæti deildarinnar.

Í síðustu fimm leikjum liðanna hefur ÍBV tvívegis fagnað sigri, síðast í ágúst á síðasta ári, tvívegis hefur FH fagnað sigri og einu sinni hafa liðin gert jafntefli. Liðin gerðu markalaust jafntefli á Hásteinsvelli síðasta sumar í fyrri umferð deildarinnar en í seinni umferðinni vann ÍBV 2:0-sigur í Kaplakrika þar sem Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði bæði mörk ÍBV.

Stærsti leikur liðanna á undanförnum árum var bikarúrslitaleikurinn í ágúst 2017 þar sem að FH-liðið mætti hreinlega ekki til leiks undir stjórn Heimis Guðjónssonar. Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði sigurmark leiksins á 37. mínútu og tryggði ÍBV sinn fimmta bikarmeistaratitil en Kristján Guðmundsson var þá þjálfari Eyjamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert